Hafnar ásökunum um fjárdrátt

Tekist hefur verið á um framtíð DV. Frá aðalfundi blaðsins …
Tekist hefur verið á um framtíð DV. Frá aðalfundi blaðsins sl. föstudag. Jón Trausti Reynisson, framkvæmdstjóri DV, sést hér fremstur á myndinni til hægri. mbl.is/Kristinn

Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri DV, segir Sigurð G. Guðjónsson lögmann fara með rangt mál er hann sakar stjórnarmenn DV um fjárdrátt. Jón Trausti segir að það sem Sigurður kalli fjárdrátt séu vanskil DV hjá lífeyrissjóðum sem söfnuðust á tímabilinu 2010 til 2012. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Jón Trausti sendi mbl.is vegna fréttar sem birtist í gær, en þar er vísað í pistil sem Sigurður skrifaði á vef Pressunnar. Þar sakar hann framkvæmdastjóra DV og aðra stjórnarmenn fjölmiðilsins, þar á meðal ritstjórann, um fjárdrátt. 

Yfirlýsing Jóns Trausta er birt í heild og er hún svohljóðandi:

„Þau vanskil DV ehf. hjá lífeyrissjóðum, sem Sigurður G. Guðjónsson, fulltrúi nýrra meirihlutaeigenda í DV, kallar fjárdrátt, söfnuðust á tímabilinu 2010 til 2012. Þau hafa ekki aukist síðastliðin tvö ár í tíð minni sem framkvæmdastjóri. Vanskilin hafa staðið í stað á tímabilinu þar sem áhersla var lögð á að greiða niður skattaskuld félagsins að fullu, en það hefur nú tekist. Fram að þessu hafa starfsmenn og stjórnarmenn DV einsett sér að bæta rekstur félagsins með góðum árangri og greiða upp öll vanskil félagsins sem söfnuðust á fyrrgreindu tímabili.

Sigurður G. Guðjónsson hefur komið fram sem fulltrúi nýrra eigenda DV og setið stjórnarfundi í þeirra umboði, ásamt því að vera fulltrúi stjórnarformanns félagsins og lögmaður Björns Leifssonar í meiðyrðamáli við DV, en hann keypti hlut í DV fyrir aðalfund félagsins í þeim yfirlýsta tilgangi að hefna fyrir umfjöllun DV. Stjórnarformaður félagsins hefur farið opinberlega fram á úttekt á fjárreiðum DV vegna „orðróms og áskana“ gegn starsfmönnum sem komu fram á bloggsíðu Sigurðar G. Guðjónssonar, án þess þó að veita starfsmönnum færi á að svara fyrir ásakanirnar eða leiðrétta það sem sýnt hefur verið fram á að er rangt.

Það er óskandi að nýir meirihlutaeigendur og stjórn DV láti af því að ófrægja starfsmenn sína opinberlega og einbeiti sér að því að hefja fyrirtækið til vegs og virðingar, eins og var yfirlýstur tilgangur þeirra með yfirtöku á því.

Jón Trausti Reynisson

framkvæmdastjóri DV“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert