Hallgrímur virðir störf Reynis

Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV, fundaði með ritstjórninni í gær.
Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV, fundaði með ritstjórninni í gær. mbl.is/Þórður

„Það var sameiginleg niðurstaða okkar að hún skyldi hætta,“ segir Hallgrímur Thorsteinsson, nýráðinn ristjóri DV um Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, fyrrum aðstoðarritstjóra blaðsins en lét af störfum í dag. Miklar þreifingar hafa verið innan DV síðustu vikur og kom blaðið meðal annars ekki út í dag. Hallgrímur segir blaðið þó koma út á morgun.

„Eins og komið hefur fram var Ingibjörg mjög ósátt við vinnubrögð nýskipaðrar stjórnar. Það hefur ekkert verið ákveðið með það hver kemur í hennar stað. Það er bara verið að skoða þennan hóp og hvernig best er að haga málum. Blaðið er bara í vinnslu og það kemur út á morgun. Ég veit ekki heldur ekki hvort það væri hægt að kalla þetta setuverkfall í gær, það voru náttúrlega löng fundarhöld og helgin áður hafði unnist illa þannig að það þurfti einfaldlega bara að fresta blaðinu,“ segir hann.

Engar fjöldauppsagnir í uppsiglingu

Hallgrímur kveður starfið annars leggjast vel í sig þrátt fyrir að gærdagurinn hafi verið erfiður en þá var haldinn strembinn starfsmannafundur sem dróst mjög á langinn.

„Á fundinum í gær voru eftirköst af þessum átökum í stjórn félagsins og breytingunum í kjölfarið af því,“ segir hann en meðal þess sem starfsmenn voru óánægðir með var framkoma stjórnarinnar í garð Reynis Traustasonar, fyrrum ritstjóra blaðsins. Reynir var settur af en þó ekki formlega rekinn og fór það illa í aðra starfsmenn. Hallgrímur segir þó að Reynir verði ekki viðloðandi starfsemi blaðsins þrátt fyrir að hafa ekki verið rekinn. Fjórir starfsmenn hafa sagt upp stöfum í kjölfar átakanna, þar á meðal tveir af ritstjórn, en Hallgrímur kveðst lítið geta sagt til um hvort fleiri fari að fordæmi þeirra.

„Ég skal ekki segja um það. Þetta verður bara að hafa sinn gang og þróast en það eru þó engar fjöldauppsagnir sjáanlegar. Þessar uppsagnir eru kannski sumpart vantraustsyfirlýsing á stjórnina en alls ekki á mig. Ég er bara búinn að vera hérna í einn og hálfan dag og helmingurinn af þessum uppsögnum láu fyrir áður en ég kom inn,“ segir hann. Ingibjörg sagði í gær í viðtali við mbl.is að áskrifendur hefðu sagt upp áskrift í hrönnum en Hallgrímur segir að gripið verði til ráðstafanna sökum þessa.

„Að sjálfsögðu er gripið til hefðbundinna ráðstafana þegar varan selst ekki nógu vel. Við munum bara athuga okkar gang, reyna að gera betur og sannfæra kaupandann um að kaupa vöruna. Það er ekkert flóknara en það,“ segir hann.

Aggressívt fréttablað á kantinum

Spurður að því hvernig hann ætli að tryggja það að blaðið verði frjáls og óháður miðill, eins og stefnt er að, kveðst Hallgrímur litlu ætla að breyta.

„Við gerum það bara á okkar hátt eins og blaðið hefur gert hingað til. Það hefur sjálfstæði, þetta er sjálfstæð ritstjórn og þannig verður það áfram. Það verða engar stórvægilegar breytingar á blaðinu fyrst um sinn en auðvitað er blæbrigðamunur á því hvernig mismunandi ritstjórar leggja línur. Sjálf ritstjórnarstefnan helst þó óbreytt. Blaðið verður í eðli sínu þetta aggressíva fréttablað á kantinum,“ segir hann og bætir við að hann sé mjög bartsýnn fyrir hönd blaðsins og hlakki til að hefja störf með starfsfólki blaðsins. Þorsteinn Guðnason, stjórnarformaður DV, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þess efnis að fallið hefði verið frá því að skoða sérstaklega faglega þætti í starfsemi DV, eins og stóð til, og sagði hann þá ákvörðun einmitt vera tekna í ljósi mik­ill­ar óánægju starfs­fólks með þau áform.

„Það voru í sjálfu sér mismunandi túlkanir í gangi á því hvað menn ætluðu sér með einhverri rannsókn. Hugmyndin að rannsókninni, eins og ég skildi hana, var alltaf sú að þegar nýir stjórnendur taka við þá er sviðið skannað og reynt að átta sig á því hvar styrkleikar liggja og hvert er hægt að þróa félagið eða fyrirtækið. Slíkt er einfaldlega gert í öllum fyrirtækjum þegar skipt er um stjórn og nýr ritstjóri kemur inn. Það voru þó náttúrlega sumir sem litu á þessa rannsókn sem einhverskonar áfellisdóm þar sem verið væri að leita að einhverju misjöfnu. Það var aldrei minn skilningur. Það hefði verið fáránlegt að leggjast í þess háttar rannsóknarvinnu, því þar með væri beinlínis verið að gera lítið úr sjálfstæði ritstjórnar og vinnubrögðum hennar,“ segir Hallgrímur og bætir við að því hafi verið gerður úlfaldi úr mýflugu. Hallgrímur kveðst ekki eiga neitt sökótt við Reyni Traustason og segist bera virðingu fyrir hans starfi sem ritstjóra.

„Ekki ætla ég að sækja Reyni Traustason til saka. Ég held að Reynir hafi fengið allt of mikið af málum á sig í gegnum tíðina sem ritstjóri DV. Sístur verð ég að blanda mér í hóp þeirra sem vilja gera honum eitthvað slíkt. Reynir hefur staðið fyrir fínum hlutum hérna. Það andar ekkert köldu á milli okkar, síður en svo,“ segir Hallgrímur ákveðinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert