Reikna með 4,1 milljarðs afgangi

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 á blaðamannafundi …
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í dag er gert ráð fyrir 4,1 milljarðs afgangi. Hækka á neðra þrep virðisaukaskatts úr 7% í 12% og lækka á efra þrep virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%. Afnema á almennt vörugjald og undanþágur vegna afþreyingarferða. Stefnt er að sölu ríkiseigna til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Þetta er annað árið í röð sem gert er ráð fyrir hallalausum fjárlögum en fjárlagafrumvarpið á síðasta ári var fyrsta hallalausa frumvarpið frá árinu 2007.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði á blaðamannafundi í dag að meginmarkmið frumvarpsins væri að tryggja áfram stöðugleika í efnahagsmálum og jafnvægi í ríkisfjármálum um leið og ráðstöfunartekjur heimilanna vaxa.

Afkoma betri en spár gerðu ráð fyrir

Afkoma ríkissjóðs árið 2013 var betri en reiknað var með og var halli á heildarjöfnuði óverulegur, eða 0,7 milljarðar í stað 24,3 milljarða halla samkvæmt útkomuspá Fjármálaráðuneytisins. Skýrist þetta einkum af 24,9 milljarða eignaaukningu ríkissjóðs í Landsbankanum hf.

Í fjárlögum 2014 var gert ráð fyrir lítilsháttar afgangi á heildarjöfnuði í fyrsta sinn í sex ár en nú er útlit fyrir betri afkomu þar sem það stefnir í að 38 milljarða króna afgang í stað 0,9 milljarða afgangs líkt og gert var ráð fyrir í fjárlögum. Er þetta einkum talið skýrast af hagfelldum tekjufærslum á yfirstandandi ári.

Lægra þrep virðisaukaskatts hækkað

Samhliða frumvarpinu eru lagðar fram tillögur á virðisaukaskattskerfinu og felst meginbreytingin í því að draga úr mun milli skattþrepanna og fækka undanþágum. Efra þrepið lækkar úr 25,5% í 24% og lægra þrepið hækkar úr 7% í 12%. Í lægra þrepið fellur t.d. öll mat- og drykkjarvara að áfengi undanskildu, veitingaþjónusta, bækur, barnableiur og veitingaþjónusta.

Þá verða undanþágur vegna afþreyingarferða, s.s. rútuferða, hestaferða, hvalaskoðunarferða o.fl., felldar brott.

Til mótvægis við hugsanleg áhrif af breytingum á virðisaukaskattskerfinu verða öll almenn vörugjöld felld niður önnur en þau sem lögð eru á áfengi, tóbak, bifreiðar og eldsneyti þann 1. janúar 2015. Sem dæmi um vörur sem munu lækka í verði er ýmis raftæki og stærri heimilistæki, byggingarvörur, bílavarahlutir og vörur sem innihalda sykur og sætuefni. Sem dæmi má nefna að sjónvarp með 25% vörugjaldi sem kostar 129.995 krónur í dag mun kosta 102.753 krónur eftir breytinguna. Mismunurinn er því 27.242 krónur eða 21%.

Barnabætur hækkaðar

Farið verður í nokkrar aðgerðir sem miða að því að hækka ráðstöfunartekjur heimilanna en Bjarni segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni samtals skila einstaklingum hartnær fjörtíu milljörðum króna, sem samsvarar um 5% af ráðstöfunartekjum árið 2013.

Fjárhæðir barnabóta verða hækkaðar um 13% auk 2,5% verðlagsuppfærslu og skerðingarhlutföll vegna tekna foreldra eru hækkuð um eitt prósentustig. Framlög til  almannatrygginga, þ.e. lífeyristryggingar og félagsleg aðstoð aukast um 2,4 mililjarða, að frátöldum verðlags- og launahækkunum en þær nema um 3 milljörðum til viðbótar.

Frítekjumark lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega verður fært til jafns við frítekjumark öryrkja eða í 27.400 krónur á mánuði. Þá verður bráðabirgðaákvæði um hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna öryrkja hækkað í 1.315.200 á ári í stað 328.800 krónum.

Ríkiseignir seldar til að létta skuldir

Bjarni segir skuldasöfnun ríkissjóðs hafa verið stöðvaða og skuldahlutfall ríkissjóðs af landsframleiðslu fara lækkandi og verða 74% í lok árs 2014 en hlutfallið var 90% árið 2011. Hann segir meginvanda ríkissjóðs vera gríðarlegar skuldir og verulega íþyngjandi vaxtajöfnuð og nefnir þrjú atriði sem eigi eftir að hafa neikvæð áhrif til framtíðar litið; Skuldbindingar gagnvart lífeyrissjóðum ríkisstarfsmanna, ríkisábyrgðir, s.s. gagnvart Íbúðalánasjóði og aukin útgjöld vegna öldrunar þjóðarinnar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir sölu ríkiseigna til þess að greiða niður skuldir og létta vaxtabyrðina þar sem ljóst sé að núverandi staða veiti lítið svigrúm til frekari aðgerða.

Áframhaldandi heimild verður veitt til sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og stefnt er að sölu á um 30% hlut í Landsbankanum á árunum 2015 og 2016 og verður andvirðið nýtt til þess að greiða niður höfuðstól af skuldabréfum sem notuð voru til að endurfjármagna fjármálastofnanir í kjölfar bankahrunsins en með því móti verður unnt að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs.

Sala á Hegningarhúsinu og húsnæði dómstóla

Heimild er í fjárlögum til sölu á nokkrum eignum ríkisins. Þeirra á meðal eru Hegningarhúsið á Skólavörðustíg, Fangelsið í Kópavogi á Kópavogsbraut og Borgartún 5 og 7, þar sem m.a. Vegagerðin, Skattrannsóknarstjóri auk annarra embætta eru til húsa.

Þá er einnig gert ráð fyrir heimild til sölu á húsnæði dómstóla, lögreglu- og sýslumannsembætta og að kaupa eða leigja annað húnsæði í tengslum við endurskipulagningu starfseminnar auk heimildar til sölu á fyrrum fasteign Landhelgisgæslunnar við Seljaveg í Reykjavík. 

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 var lagt fram í dag.
Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 var lagt fram í dag. Mynd/Árni Sæberg
Lagt er til að hækka virðisaukaskatt á matvæli úr 7% …
Lagt er til að hækka virðisaukaskatt á matvæli úr 7% í 12% þann 1. janúar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Heildarjöfnuður ríkissjóðs 2010 til 2015
Heildarjöfnuður ríkissjóðs 2010 til 2015 Mynd/mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert