Stefán stýrði ekki rannsókninni

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir í bréfi til umboðsmanns að skoða verði samskipti hennar við Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, út frá þeirri staðreynd að hann stýrði ekki rannsókn lekamálsins heldur hafi það verið ríksisaksóknari.

„Í bréfi yðar fjallið þér ítarlega um lýsingu L á samskiptum við mig á þeim tíma sem framangreind rannsókn fór fram og leggið síðan út af þeirri lýsingu. Eins og ég kem að síðar ætla ég ekki og get ekki stöðu minnar vegna haft opinberlega orðrétt eftir samskipti mín við embættismenn, en get hins vegar fullyrt að upplifun mín af þessum samtölum við L var ekki í samræmi við þá mynd sem þér dragið upp í bréfi yðar.

Meginatriði þessa máls og það sem mestu skiptir er að L var ekki stjórnandi umræddrar rannsóknar. Hann tók ekki ákvörðun um rannsóknina, stjórnaði henni ekki, tók ekki einstakar ákvarðanir um aðgerðir og hafði ekki afskipti af henni frá degi til dags. Þessar ákvarðanir voru í höndum R sem bar ábyrgð á rannsókninni.“

Stefán vissi lítið um efni rannsóknarinnar

Hún segir að þegar rannsókn málsins hafi komið til tals í samtölum þeirra hafi hún fyrst og fremst að bera undir hann hvað væru eðlilegir hættir í slíkum rannsóknum og hvernig öryggi rannsóknargagna væri almennt tryggt. „L kom ekki sjálfur að rannsókninni og vissi í raun lítið um efni hennar og framgang, líkt og hann sjálfur staðfestir. Er rétt að ítreka það í þessu samhengi að það kom margoft fram hjá L að honum þættu samtöl okkar á engan hátt óviðeigandi eða óþægileg eða til þess fallin að hamla störfum hans.“

Hún segir að sökum þess að Stefán fór ekki með rannsókn málsins geti ekki verið forsendur fyrir því fyrir umboðsmann að halda athugun sinni áfram.

Nefnir ekki nöfn lögfræðinga

Í svari við tilteknum spurningum umboðsmanns segir Hanna Birna meðal annars að hún hafi í meginatriðum sjálf ákvarðanir um samskipti sín við Stefán en það hafi hún gert í samráði við hann og hafi hann langa reynslu úr stjórnsýslunni, bæði hjá lögreglu og fyrrum dómsmálaráðuneyti.

„Ég treysti því staðfestingu hans á því að ekkert óeðlilegt væri að ræða ákveðna þætti málsins við hann, þar sem hann hefði ekki beina aðkomu að málinu. Þá skal það ítrekað að upplifun mín af þessum samtölum við L eru ekki í samræmi við þá mynd sem þér dragið upp í bréfi yðar.

Að auki hefur sú lögfræðilega ráðgjöf sem ég hef fengið innan sem utan ráðuneytis verið á þá lund að samskipti mín við L, líkt og þeim er lýst hér að ofan, væru mikilvæg til að greiða fyrir framkvæmd rannsóknarinnar. Ég sé ekki ástæðu til að nefna nöfn þeirra sérstaklega enda er ábyrgðin mín sem ráðherra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert