Vilja fyrstir fá Apple Watch

Apple notendur eru þekktir fyrir að bindast vörunum frá tæknirisanum í Cupertino sterkum böndum og að veðrast upp þegar von er á nýjum vörum. Nú þegar snjallúrið Apple Watch er væntanlegt á næstu mánuðum eru Apple aðdáendur þegar farnir að mynda biðröð eftir úrinu að sögn Harðar Ágústssonar í Maclandi.

Úrið var kynnt með miklum tilþrifum í gær og því verður spennandi að sjá hvort salan standist væntingarnar sem eru miklar. Ólíkt því sem gjarnan hefur verið er Apple ekki að kynna róttæka tæknibyltingu í þetta skiptið. Snjallúr eru þegar komin á markað en Samsung helsti samkeppnisaðili Apple setti Galaxy Gear úrin á markað fyrir réttu ári síðan, hafa þau notið nokkurra vinsælda og önnur kynslóð þeirra er þegar komin í sölu.

Því fer þó fjarri að snjallúr hafi verið einhver bylting eða náð hylli almennings og óvíst er um endingu rafhlöðunnar, Hörður vonast þó til að Apple sýni sinn helsta styrk sem hefur í gegn um tíðina falist í notendavænni og fallegri hönnun sem muni gera úrin söluvænleg.

Það verður tíminn þó að leiða ljós en úrin, sem munu fást í 18 mismunandi útgáfum, eru væntanleg á markað í byrjun næsta árs. Í Bandaríkjunum munu úrin kosta 349 dollara en Hörður segist ekki gera sér grein fyrir því hvað þau muni kosta hér þó að vonandi muni niðurfelling vörugjalda hafa einhver áhrif svo verðið verði ekki of hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert