Mesta skattahækkun Íslandssögunnar?

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar í ræðustól.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar í ræðustól. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heitar umræður urðu á Alþingi í dag um fjárlagafrumvarp næsta árs en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu í morgun og lagði áherslu á að aðhald væri nauðsynlegt til að lækka skuldir ríkissjóðs og bæta stöðu heimila og fyrirtækja.

Bjarni sagði jafnframt að með markvissum aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefði tekist að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. 

Hann sagði að á sama tíma og að lánskjör ríkisins færu batnandi væri atvinnustig á uppleið og að allar spár gerðu ráð fyrir góðum hagvexti 2015 og næstu ár á eftir. 

„Framundan er tímabil þar sem við getum hafið niðurgreiðslur skulda og er það grundvallaatriði næstu árin,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði að eignasala væri nauðsynleg til að rétta úr stöðu ríkissjóðs og stefnt væri að því að selja 30% eignarhlut í Landsbankanum á næstu árum. Bætti hann við að frekari eignasala gæti orðið á næstu árum. 

Bjarni lagði áherslu á einföldun skattkerfisins sem fælist að miklu leyti í breytingum á virðisaukaskattskerfinu og afnámi almennra vörugjalda. 

Áætlað er að þetta lækki verðlag um 0,2% og auki kaupmátt um hálft prósent. Bjarni bætti svo við að úrræði ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna myndi jafnframt bæta afkomu heimilanna.

Bjarni lagði þó áherslu á aðhald og mikilvægi þessi. „Staðreyndin er sú að ef við gætum ekki aðhalds þá verður enginn afgangur næstu árin og skuldasöfnun mun hefjast á ný og vaxtabyrðin verður áfram íþyngjandi.“

„Er meirihluti í þinginu fyrir þessu?“

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, var næstur í ræðustól. Hann vitnaði í Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og sagði að hann hefði sagt að hækkun á sköttum á matvælum bitnaði verst á hinum lægstu. Helgi benti á að hinir lægstu í samfélaginu hefðu ekki enn notið lækkana, heldur aðeins þeir ríku. 

„Við hljótum að spyrja hvernig hann réttlætir það að hækka skatta á þá lægstu á meðan hann lækkar skatta hinna ríku,“ sagði Helgi. „Er það rétt munað hjá mér að hækkunin úr 7% í 12% sé stærsta einfalda skattahækkun Íslandssögunnar? Eða að minnsta kosti eftir hrun?“ spurði Helgi.

„Það er svo fjarri vinstrimönnum í þessu landi að gera séð skattalækkun að þegar hún raunverulega birtist þeim með jafnskýrum hætti og gerist í þessu máli þá afneita þeir því að þetta sé hún,“ svaraði Bjarni og sagði að með þessum breytingum væri ríkið að gefa eftir fjóra milljarða króna sem yrðu eftir hjá almenningi. 

„Það heitir skattalækkun,“ sagði hann ennfremur.

Bætti hann síðar við að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefðu létt undir með öllum tekjuhópum og enginn hefði verið undanskilinn.

Helgi svaraði og sagði að þessi skattahækkun væri alvarleg tíðindi fyrir láglaunafólk. „Er meirihluti í þinginu fyrir þessu? Því trúi ég ekki og vona svo sannarlega að frumvarpið verði tekið ærlega í gegn á þinginu.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í gærkvöldi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert