Undrandi á kröfum Þóreyjar

Þórey Vilhjálmsdóttir
Þórey Vilhjálmsdóttir

Alþjóða fjölmiðlastofnunin (IPI) segist undrandi á því að lögmaður Þóreyjar Vilhjálmsdóttur, aðstoðarmanns innanríkisráðherra, hafi í stefnu á hendur tveimur blaðamönnum DV krafist ítrustu refsingar yfir þeim. Segir stofnunin að krafan sé í engu samræmi við meint brot blaðamannanna.

Blaðamönnunum var stefnt vegna „ærumeiðandi ummæla og grófra aðdróttana“ og þess krafist að þeir verði dæmdir til ítrustu refsingar. Hámarks refsing fyrir brot af þessu tagi er fangelsi í eitt ár.

Stefnan kemur til vegna skrifa þeirra Jóns Bjarka Magnússonar og Jóhanns Páls Jóhannssonar um lekamálið svonefnda. Í DV þann 20. júní 2013 var því haldið fram að hún væri „starfsmaður B” í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli tengdu lekamálinu.

Í yfirlýsingu frá IPI segir að það sýni ekki virðingu gagnvart hlutverki fjölmiðla að krefjast fangelsisrefsingar yfir blaðamönnum sem geri saklaus mistök í starfi sínu. Þá er farið fram á að íslensk stjórnvöld geri breytingar á meiðyrðalöggjöf sinni, þannig að blaðamenn njóti verndar hafi þeir starfað í góðri trú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert