Vildi ekki lifa með því að segja ósatt

Gísli Freyr Valdórsson.
Gísli Freyr Valdórsson. mbl.is/Golli

Þegar nær dró aðalmeðferð lekamálsins sem átti að fara fram á morgun en var skyndilega frestað í dag vegna nýrra gagna varð Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra, órólegur. Hann vildi ekki lifa með því að segja ósatt, jafnvel þó að hann yrði sýknaður.

Þetta segir Ólafur Garðarsson, verjandi Gísla Freys, í samtali við mbl.is. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu rétt fyrir klukkan sex í dag þar sem hún greindi frá því að Gísli Freyr hefði játað að hafa lekið gögnum um hælisleitandann Tony Omos.

mbl.is hefur ítrekað reynt að ná í Gísla Frey eftir að ráðherra sendi frá sér yfirlýsinguna en án árangurs.

Sá ekki gögnin áður en hann játaði

Ólafur segir að miðað við gögn málsins hafi hann talið meiri líkur á sýknu en sakfellingu í málinu. Gísli Freyr hafði ekki séð gögnin sem leggja á fram við þingfestingu í málinu á morgun þegar hann fór á fund ráðherra í dag og játaði sök.

„Hvort ný gögn saksóknara hefðu breytt einhverju þar um skal ég ekki segja en Gísli Freyr vildi fara á fund ráðherra áður en hann sá þau gögn,“ segir Ólafur.

Almenningur viti einnig neikvæðu hlutina

Hvers vegna lak hann minnisblaðinu?

„Hann skýrir sjálfsagt best frá því sjálfur en segir að það sé kannski ekki óeðlilegt að almenningur fái ekki aðeins að vita jákvæða hluti um þá sem sækja um landvist hér á landi heldur einnig neikvæðu hlutina,“ segir Ólafur. „Hann gerir sér grein fyrir því að það er ekki hans starf en það var of seint, hann var búinn að senda þetta frá sér.

Hann ætlaði að vernda sína nánustu og ráðherra með því að segja ósátt en segir að þetta hafi nagað hann að innan allan tímann,“ segir Ólafur.

Þó að brot Gísla Freys sé nú öllum ljóst og það kosti hann starfið og æruna í bili hafi hann viljað greina frá því, segir Ólafur.

Snerist upp í andhverfu sína

Aðspurður hversu lengi játningin hafi legið í loftinu segir Ólafur að Gísli hafi byrjað að velta þessum möguleika fyrir sér við hann í gær.

„Honum finnst hræðilegt að hafa gert þetta. Hann vildi vernda þá sem hvergi höfðu komið að málinu en það snerist upp í andhverfu sína,“ segir Ólafur. „Ég tel hins vegar að með játningunni hafi hann gert hið eina rétta í stöðunni.“

Aðspurður segist Ólafur hafi ekki vitað af þessu fyrr en í dag.

Telur þú að játningin verði til refsilækkunar í málinu?

„Það er viðbúið að tekið verði tilliti til hennar,“ segir Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert