„Þetta er mjög alvarlegt mál“

AFP

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að utanríkisráðuneytið vinni nú að því að fara yfir hvort bandaríska leyniþjónustan (CIA) hafi millilent á Íslandi með fanga sem flogið var með til annarra landa þar sem þeir þurftu að sæta pyntingum.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, fjallaði um nýja skýrslu öldungadeildar Bandaríkjaþings um starfshætti CIA, en hann sagði að það væri nauðsynlegt að hefja opinbera rannsókn á málinu varðandi aðkomu Íslands.

Hann sagði að frá og með sumrinu 2007 hefði verið mörkuð sú stefna að leita í flugvélum sem grunaðar væru um að vera með fanga innanborðs. Aftur á móti væri lítið vitað um tímabilið 2001 til 2007. Það væri þar af leiðandi nauðsynlegt að Ísland gerði hreint fyrir sínum dyrum og upplýsti hverjir hefðu gefið CIA fyrirheit um að þeir gætu lent í friði á íslenskum flugvöllum.

Í skýrsl­unni er því haldið fram að CIA hafi villt um fyr­ir stjórn­mála­mönn­um um hvaða aðferðum væri beitt en CIA hef­ur varið aðgerðirn­ar, svo sem vatns­pynt­ing­ar, sem var beitt á þá sem voru grunaðir um aðild að hryðju­verka­árás­un­um á Banda­rík­in þann 11. sept­em­ber 2001. Árni Páll sagði að skýrslan fjallaði um „forkastanlega meðferð bandarísku leyniþjónustunnar á saklausu fólki.“

Sigmundur Davíð sagðist ekki vita til þess að íslenskir ráðamenn hefðu gefið nein fyrirheit vegna þessa. Árið 2007 hefði verið gefin út skýrsla um þetta mál, en hann bætti við að utanríkisráðuneytið væri að fara yfir málið og rannsaka það í ljósi þeirra upplýsinga sem koma fram í skýrslunni. Sú vinna standi yfir og vonandi ljúki henni sem fyrst. 

„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og mikilvægt að kanna á allan þann hátt, hvort eð er, hvort að aðstaða á Íslandi hafi á einhvern hátt verið misnotuð í þessu ferli,“ sagði Sigmundur.

Hann bætti við, að samkvæmt fyrstu athugun í utanríkisráðneytinu hefði ekkert komið fram í skýrslunni um Ísland og um fangaflutninga. En menn þyrfti hins vegar að leita allra leiða til að grennslast fyrir um málið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert