Við neyðaraðstoð á Miðjarðarhafi

Björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi. Átján mannna áhöfn varðskipsins Týs er við …
Björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi. Átján mannna áhöfn varðskipsins Týs er við landamæraeftirlit við Ítalíu nú um jólin. Af vef Landhelgisgæslunnar

Átján manna áhöfn varðskipsins Týs er við landamæraeftirlit á Miðjarðarhafi nú um jólin en Týr er þar við landamæragæslu fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Áhöfn Týs hefur komið að björgun fjölda flóttamanna frá því verkefnið hófst í nóvember. Til stóð að Týr yrði í Miðjarðarhafinu út janúar en nú hefur verkefnið verið framlengt til loka febrúar.

Einar Valsson, skipherra á Tý, er einn þeirra sem eru um borð í Tý í kvöld en hann og fjölskylda hans ákvað að fresta jólunum í ár um nokkra daga eða þar til hann kemur heim eftir fimm daga.

Að sögn Einars er ekki í fyrsta skipti sem hann er á sjó um jól. Hann hefur starfað hjá Landhelgisgæslunni frá árinu 1981 og hefur frá árinu 2010 tekið þátt í verkefnum á vegum Frontex sem skipherra á varðskipum.

Í frétt á vef Landhelgisgæslunnar frá árinu 2010 kemur fram að eitt fyrsta verkefni Einars, eftir að hann var fastráðinn skipherra hjá Landhelgisgæslunni það sama ár, hafi verið við landamæraeftirlit við Senegal en þar og á vestanverðu Miðjarðarhafi  sinnti áhöfn varðskipsins Ægis landamæraeftirliti í hálft ár.

„Þrátt fyrir ungan aldur hefur Einar starfað hjá Landhelgisgæslunni frá árinu 1981 en Einar var fyrst lögskráður á varðskip Landhelgisgæslunnar sem messagutti. Fyrstu ferð sína sem stýrimaður fór Einar þann 17. júlí 1985, daginn eftir að hann fékk stýrimannsskírteinið í hendurnar. Hann lauk svo fjórða stiginu 1988. Einar hefur á starfsferlinum siglt sem afleysingaskipherra allnokkur ár og leyst af á Óðni, Tý og Ægi.  Fyrsti túrinn sem afleysingaskipherra var í september 1995 og var það í Smugunni,“ segir í frétt á vef LHG frá því árið 2010. 

Halda jólin hátíðleg saman

Einar segir að jólin séu haldin hátíðleg um borð í Tý þrátt fyrir að áhöfnin sé fjarri fjölskyldu og vinum. Þau borði góðan mat saman og reyna að hafa það notalegt saman um borð. Hann segir að það sé talsvert síðan hætt var að vera með varðskipin á sjó við Íslandsstrendur um jól og áramót þannig að þetta sé í fyrsta skipti í töluverðan tíma sem skipin eru ekki í höfn á jólum.

„Þegar ég kem heim þá höldum við bara tvöföld jól og áramót,“ segir Einar en yngsta dóttir hans er ellefu ára gömul og ljóst að það verður mikil gleði á þeim bæ þann 29. desember.

Skömmu fyrir jól fóru átta úr áhöfninni heim og aðrir komu í staðinn. Einar fer heim ásamt fleirum þann 29. desember en reynt var að skipta því þannig að sem fæstir yrðu úti bæði jól og áramót. Fimm úr áhöfninni verða hins vegar allan tímann eða í þrjá mánuði.

Áhöfnin á Tý tók þátt í tveimur stórum björgunaraðgerðum nú í desember og komið um eitt þúsund flóttamönnum til hjálpar. Einar segir þetta verkefni töluvert öðruvísi heldur en önnur verkefni sem hann hefur komið að á vegum Landhelgisgæslunnar.

„Þetta getur tekið mikið á bæði andlega og líkamlega. En hin hliðin er sú hvað þetta gefur manni mikið. Bæði í reynslu og eins andlega, að geta komið fólki sem er í neyð til aðstoðar,“ segir Einar en flestir þeirra sem er bjargað af Frontex eru að flýja stríð og aðrar hörmungar heima fyrir. 

Fyrst og fremst lífsbjörgun og mannúðarstörf

Að sögn Einars hafa fjölmörg verkefni komið til kasta áhafnarinnar á Miðjarðarhafi nú en yfir 170 þúsund flóttamenn hafa farið þessa leið það sem af er ári. Yfir fjögur þúsund þeirra náðu hins vegar ekki til lands heldur fórust á leiðinni til fyrirheitna landsins.

„Þetta svarar til helmings íslensku þjóðarinnar. Þó svo við séum hér undir merkjum landamæragæslu þá er þetta fyrst og fremst að bjarga lífi fólks og vinna mannúðarstörf hér,“ segir Einar.

Hann segir að á sama tíma og þetta er erfitt starf þá er það mjög gefandi. „Við höfum verið heppin í gegnum tíðina þar sem enginn þeirra sem við höfum aðstoðað hefur látist. Við höfum náð að bjarga öllum þeim málum sem við höfum komið að,“ segir Einar en Týr hefur í þessu verkefni aðallega verið á svæðinu austan við Sikiley.

Greint hefur verið frá tveimur stórum björgunarafrekum Týs á mbl.is fyrr í mánuðum en þann 6. desember tók áhöfn Týs þátt í björgun 390 flóttamanna af stjórnlausu flutningaskipi um 165 sjómílur austur af Sikiley. Nokkrum dögum síðar bjargaði áhöfn Týs 408 flóttamönnum af flutningaskipi sem var staðsett 165 sjómílur austur af Möltu.

Einar segir að flestir þeirra sem er bjargað á þessum slóðum komi með yfirfullum flutningaskipum frá Tyrklandi og ef það er einhver matur eða vatn um borð þá er það af skornum skammti. Um er að ræða fólk á öllum aldri, börn og gamalmenni.

Enginn matur né vatn um borð og skipið rak stjórnlaust

Þetta eru stórir og margir hópar sem eru að reyna að komast til Evrópu og segir Einar að þetta taki verulega á. Einkum hafi fyrsta  björgunin  tekið verulega á enda áhöfnin vanari því að vera í verkefnum sem þessum við Spán þar sem flestir flýja á litlum bátum og 20-30 manns um borð.

Skipið sem flóttamennirnir 390 voru um boð í rak stjórnlaust í um 165 sjómílur austur af Sikiley þegar eftirlitsflugvél frá ítölsku strandgæslunni flaug fram á skipið. Þar fengust upplýsingar um fjölda flóttamannanna um borð og í hópnum væru bæði konur og börn.

Enginn matur né vatn var um borð í skipinu og var talið mikilvægt að flytja fólki sem fyrst frá borði. Varðskipið Týr var staðsett í u.þ.b. 100 sjómílna fjarlægð og var samstundis siglt á vettvang. Einnig var óskað eftir aðstoð eftirlitsskips frá ítölsku strandgæslunni.

Flutningaskip á svæðinu voru fyrst til björgunar og var tekin ákvörðun um að flytja flóttafólkið um borð í eitt flutningaskipanna. Týr sigldi til móts við skipið og þegar þau mættust fóru fjórir skipverjar af Tý yfir í flutningaskipið til að vera til aðstoðar og meta ástandið fólksins en tveir úr hópnum voru slasaðir.

Ítalska varðskip kom síðan að Tý og flutningaskipinu en til stóð til að hefja flutning á flóttafólkinu frá flutningaskipinu yfir í ítalska varðskipið. Slæmt sjólag var á svæðinu og gekk ekki að flytja fólkið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir léttabáts frá ítalska varðskipinu. Aðstæður voru ekki taldar boðlegar að teknu tilliti til öryggi fólksins. Var því ákveðið að flutningaskipið myndi sigla með flóttafólkið til Catania á Sikiley í fylgd varðskipsins Týs en sex varðskipsmenn voru um borð í flutningaskipinu til að hlúa að flóttafólkinu þar til komið var til hafnar, að því er kom fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni á þessum tíma.

Ekki hægt að ímynda sér þessar aðstæður fyrr en maður upplifir þær

„Það er eiginlega ekki hægt að ímynda sér hvernig þetta er fyrr en maður upplifir það,“ segir Einar enda allt upp í eitt þúsund manns um borð. „Maður hefur eiginlega ekki séð neitt þessu líkt nema í bíómyndum,“ segir Einar.

Talið er að um 232 milljónir manna séu á flótta í heiminum, fólk sem hefur meðal annars flúið heimili sitt vegna stríðsátaka eða vegna efnahagsaðstæðna heima fyrir. Allt of margir þeirra sem eru á flótta búa við aðstæður sem eru ekki mönnum bjóðandi, segir framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna  Ban Ki-Moon. Hann hvatti þjóðir heims til þess að standa við skuldbindingar sínar um verndum mannréttinda á alþjóðlegum degi fólks á flótta (International Migrants Day), nú fyrir jólin.

Afskiptaleysi og skortur á upphyggju

Yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, Zeid Ra'ad Al Hussein, segir að afskiptaleysi og skortur á umhyggju fyrir þessu flóttafólki sé skelfileg og um leið ömurleg. Það megi ekki verða þannig að ríkar þjóðir líti fram hjá vandanum og loki landamærum sínum fyrir þeim sem minna mega sín.

Að sögn Einars hafa verið settar upp flóttamannabúðir víða á Ítalíu en mjög margir þeirra koma að landi á Sikiley og Lampedusa. Til að mynda var Týr í höfn í 17 þúsund manna bæ á Sikiley fyrr í vikunni og það sem af er ári hafa 27 þúsund flóttamenn farið þar um þannig að ljóst er að flóttamannastraumurinn reynir á íbúana. 

Það sem af er ári hafa 348 þúsund flóttamenn (migrants og refugees) lagt af stað í leit að bættum kjörum og aðstæðum í heiminum. Alls létust tæplega 4.300 þeirra á flóttanum.

Flestir hafa látist á flótta yfir Miðjarðarhafið en alls hafa 207 þúsund flúið þá leið það sem af er ári. Það er þrefaldur fjöldi þeirra sem flúðu árið 2011 þegar borgarastríðið geisaði í Líbíu.

Í ár hefur þeim sem eru á flótta vegna stríðsástands fjölgað mjög og eru þeir í fyrsta skipti í meira en áratug fleiri en þeir sem flýja efnahagslegar aðstæður í heimalandinu, svo sem atvinnuleysi, náttúruhamfarir og hungursneyð. Af þeim sem hafa reynt að komast til Evrópu eru rúmlega 60 þúsund Sýrlendingar og um 35 þúsund Erítrear.

Flýja ekki í gamni sínu heldur af lífsnauðsyn

Antonio Guterres, yfirmaður flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, segir að heilu fjölskyldurnar leggi ekki líf sitt í hættu með því að flýja land sjóleiðina nema þá að þær hafi glatað öllu og þær sjái enga aðra leið færa í leit sinni að öryggi.

„Ef við stæðum í sömu sporum myndum við væntanlega bregðast við á sama hátt,“ segir Zeid en þeir ræddu málefni flóttafólks á fundi á vegum SÞ í Genf nýverið.

Að vera bjargað eða drukkna á „dauðahafinu“

Flóttinn yfir Miðjarðarhafið – eða „dauðahafið“ í tilvikum þúsunda flóttamanna – er oft áhættusamur því margir þeirra sem nýta sér bága stöðu þeirra selja flóttamönnum far á yfirfullum bátum sem fara af stað í togi stærri skipa. Þegar bátarnir eru komnir langleiðina að strönd Ítalíu eru bátarnir losaðir frá og er þá tvennt í stöðunni – að vera bjargað eða drukkna.

Ítalski flotinn bjargaði um 160 þúsund flóttamönnum á einu ári í björgunaraðgerð sem nefnd hefur verið Mare Nostrum. Leitar- og björgunaraðgerðin var umdeild á Ítalíu, meðal annars vegna kostnaðarins, sem nam 9 milljónum evra á mánuði, eða 1,4 milljörðum króna.

Mare Nostrum var því einkum gagnrýnd fyrir að stuðla að enn meiri straumi flóttafólks yfir hafið. Þeir sem gagnrýna aðgerðina segja að með því að „ferja“ fólk yfir hafið sé verið að hvetja aðra íbúa Afríku og Miðausturlanda til að freista þess að fara yfir hafið til Evrópu.

Yfirvöld á Ítalíu hættu aðgerðinni eftir að önnur ríki Evrópusambandsins neituðu að aðstoða við fjármögnun þess og sett var á laggirnar önnur slík aðgerð svonefnd Triton-aðgerð sem er heldur ódýrari.

Yfirmaður í ítalska flotanum segir þetta ekki breyta neinu, áfram verði reynt að hafa hendur í hári smyglaranna. Miðjarðarhafið má ekki breytast í dauðahafið,“ segir De Giorgi. Hann hvetur til þess að refsingar vegna mansals verði þyngdar og að ríki Evrópu taki sig á í aðstoða flóttafólk.

Kostar minna en björgun eins banka

Í síðustu viku óskuðu Sameinuðu þjóðirnar eftir því að ríki heims myndu leggja til 8,4 milljarða Bandaríkjadala í neyðaraðstoð vegna borgarastríðsins í Sýrlandi.

Um er að ræða neyðaraðstoð og aðstoð til lengri tíma litið til þeirra 18 milljón Sýrlendinga sem eru fórnarlömb stríðsátaka í heimalandi sínu. Allt bendir til þess að fyrir árslok 2015 verði 4,3 milljónir Sýrlendinga flúnir til nágrannalandanna.

„Fyrir þá sem telja að þetta sé há fjárhæð vil ég benda á að mig rekur ekki minni til þess að björgun nokkurs meðalstórs banka hafi kostað minna en þetta,“ sagði Guterres þegar hann biðlaði til þjóða heims fyrir tæpri viku um að leggja sitt af mörkum til þess að bjarga lífi fólks sem býr við skelfilegar aðstæður. Yfir 200 þúsund Sýrlendingar hafa týnt lífi síðan borgarastríðið hófst þar í mars 2011.

Einar Valsson skipherra á varðskipinu Tý
Einar Valsson skipherra á varðskipinu Tý Vefur Landhelgisgæslunnar
Björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi. Átján mannna áhöfn varðskipsins Týs er við …
Björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi. Átján mannna áhöfn varðskipsins Týs er við landamæraeftirlit við Ítalíu nú um jólin. Af vef Landhelgisgæslunnar
Björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi. Átján mannna áhöfn varðskipsins Týs er við …
Björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi. Átján mannna áhöfn varðskipsins Týs er við landamæraeftirlit við Ítalíu nú um jólin. Af vef Landhelgisgæslunnar
Guðrún H. Einarsdóttir, Magnús Pálmar, stýrimaður og Einar H. Valsson, …
Guðrún H. Einarsdóttir, Magnús Pálmar, stýrimaður og Einar H. Valsson, skipherra. Mynd JPA. Af vef Landhelgisgæslunnar
Þegar Týr lagði af stað til Sikileyjar - ljósmynd JPA
Þegar Týr lagði af stað til Sikileyjar - ljósmynd JPA Af vef Landhelgisgæslunnar
Varðskipið Týr
Varðskipið Týr Af vef Landhelgisgæslunnar
Týr geður klár fyrir Miðjarðarhafið
Týr geður klár fyrir Miðjarðarhafið Árni Sæberg
Hollenska flutningaskipið með flóttamennina um borð. Varðskipið Týr tók þátt …
Hollenska flutningaskipið með flóttamennina um borð. Varðskipið Týr tók þátt í umfangsmikilli björgunaraðgerð þar sem 390 flóttamönnum var bjargað austur af Sikiley. Landhelgisgæslan
Flóttamannafjölskylda frá Sýrlandi sem lifði af.
Flóttamannafjölskylda frá Sýrlandi sem lifði af. AFP
I
I -
-
Frá Sikiley
Frá Sikiley AFP
-
Aloniab Nahom fæddist um miðjan desember um borð í flutningaskipi …
Aloniab Nahom fæddist um miðjan desember um borð í flutningaskipi á leið til Sikileyjar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert