„Látin sigla stjórnlaust“

Hér má sjá mynd af því þegar áhafnarmeðlimir á Tý …
Hér má sjá mynd af því þegar áhafnarmeðlimir á Tý komu að björgun flóttamanna um miðjan desembermánuð. Eins og sjá má er mikill fjöldi fólks um borð.

Það verður æ algengara að skip sem flytja flóttamenn um Miðjarðarhafið séu látin sigla á sjálfstýringu án áhafnar, þannig að ef eitthvað kemur upp á eru þau í raun stjórnlaus.

Í nótt fóru áhafnarmeðlimir varðskipsins Týs um borð í flutningaskipið Ezadeen og settu það í tog, en það sigldi stjórnlaust án áhafnar í slæmu veðri. Búið var að fylgjast með skipinu í nokkurn tíma, en það átti upphaflega að fara frá Kýpur til Frakklands.

Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við mbl.is að svo virðist vera sem stærri og stærri skip séu notuð í svona flutninga. Venjulega sé um að ræða einstaklinga eða skipulögð glæpasamtök sem taki aleigu fólks upp í farmiða og svo séu skipin send af stað.

Hún segir að samkvæmt upplýsingum frá áhöfn Týs hafi ástand um borð í flutningaskipinu verið ágætt eftir að matvælum og vatni hafi verið komið til fólksins. Það hafi aftur á móti verið bæði matar- og vatnslaust í nokkra daga þar á undan. 

Um borð í varðskipinu eru menntaðir sjúkraflutningamenn sem fóru um borð í flutningaskiptið. Hrafnhildur segir að þeir hafi gert að einhverjum minniháttar meiðslum, en ekkert aðkallandi hafi komið upp.

Mjög slæmt veður er á þessum slóðum og segir Hrafnhildur að ferðin sækist illa. Gert er ráð fyrir að skipið muni koma til hafnar seinni partinn í dag.

Mikill fjöldi fólks drukknar ár hvert á þessum ferðum, en mikið er einnig um að litlir bátar sem ekki eru gerðir fyrir lengri siglingar séu notaðir. Eru þeir einnig oftast yfirfullir af fólki sem leitar betra lífs norðan Miðjarðarhafsins.

Varðskipið Týr hefur undanfarin sex ár komið að gæslu á Miðjarðarhafinu á vegum Frontex landamæraeftirlitsins, en það hélt utan í lok nóvember. Á rúmlega mánuði hefur varðskipið komið að fjórum málum sem svipa til þessa máls.

Hrafnhildur segir að í tveimur tilfellum hafi þurft að setja skipin í tog, en að í þriðja skiptið hafi skipi sem gat sjálft siglt verið fylgt í höfn. Í heild hefur fjöldi farþega í þessi fjögur skipti verið um tvö þúsund að sögn Hrafnhildar.

Flóttafólkið er flutt til þess lands sem á landhelgi þar sem skipið er stöðvað í, en það fer í flestum tilfellum í flóttamannabúðir á viðkomandi stað. Hrafnhildur segir að í þetta skiptið fari það til Ítalíu, en þar muni svo þarlend stjórnvöld taka ákvörðun um framhald málsins og það sé í raun úr höndum Týs.

Frétt mbl.is: Týr með áhafnalaust skip í togi

Frétt mbl.is: 450 manns í hættu á skipi án áhafn­ar

Týr.
Týr. Mynd/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert