Sakna Sifjar hæfilega

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur að störfum.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur að störfum. mbl.is/Árni Sæberg

„Við söknum hennar hæfilega,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um brotthvarf TF-SIF, flugvélar Landhelgisgæslunnar, en vélin fór fyrir áramót í verkefni í Miðjarðarhafi fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Vélin hefur nýst vísindamönnum afar vel við eftirlit með eldgosinu í Holuhrauni.

„Hún gagnast mjög vel út af þessum radarbúnaði sem er um borð. Hann hefur nýst okkur mjög vel í að fylgjast með vexti hraunsins og eins yfirborði jökulsins til þess að sjá breytingar á yfirborðinu, því það er þessi undirliggjandi hætt undir jöklinum,“ segir Ármann samtali við mbl.is.

Ekki er óvenju mikill hamagangur á gosstöðvunum sem stendur. „Þetta er tiltölulega rólegt og þá er þetta ekkert meiriháttar stress,“ segir Ármann ennfremur.

Verkefni fyrir Frontex þýðingarmikil til að halda vélinni í rekstri

Vélin verður við störf á Ítalíu til og með 15. febrúar nk. Núverandi fjárheimildir Landhelgisgæslunnar leyfa ekki rekstur flugvélarinnar hér við land allt árið og eru því verkefni fyrir Frontex þýðingarmikil til að halda flugvélinni í rekstri og starfsmönnum hennar í virkri þjálfun, eins og greint var frá á mbl.is á fimmtudag.

Ármann tekur fram, eins og Gæslan benti á í gær, að hægt verði að kalla vélina heim gerist þess þörf. Það segi sig hins vegar sjálft að það sé mjög þægilegt að hafa vélina, enda geti hún m.a. séð í gegnum skýin. 

Aðspurður segir Ármann að vélin hafi í haust farið í á bilinu fjórar til sex ferðir í mánuði til að fljúga yfir gosstöðvarnar til að mynda hraunið. Hann tekur fram að vélin sé mikið notuð og hafi einnig verið í öðrum leiðöngrum, m.a. til að fylgjast með hafís við Ísland.

Var komin heim innan sólarhrings í haust

Ármann segir að eins og sakir standa þá sé í lagi að missa vélina í einn og hálfan mánuð. Gosið sé að minnka og dregið hafi úr útbreiðslu hraunsins. „Í sjálfu sér þá er þetta hið besta mál fyrir Gæsluna að koma henni út í verkefni. Þeir fá náttúrulega einhverjar tekjur inn á hana í staðinn,“ segir Ármann. 

Menn hafi hins vegar þessa heimild til að kalla vélina heim og reyndist það lítið mál sl. haust. „Hún var komin heim innan sólarhrings eftir að beðið var um hana,“ segir Ármann.

Betra að skjálftavirknin í Bárðarbungu haldi áfram

Á fundi vísindamannaráðs almannavarna á föstudag kom fram að jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu sé enn öflug, en heldur hafi þó dregið úr henni.

Ármann tekur fram að menn vilji ekki það fari að draga úr skjálftavirkninni. „Það er kannski betra að hún haldi áfram heldur en að það fari að draga eitthvað úr henni. Þá fara menn kannski að stressast í einhverja daga; þá verða menn að vera svolítið á tánum.“

Spurður um nánari útskýringu segir hann: „Þá getur verið að ferlið sé að snúast við og þá gæti Bárðarbungan sjálf verið að fara af stað. Þetta er allt í lagi á meðan lokið er að síga, það er bara gott og fínt. En um leið og það fer að verða eitthvað stopp á þessu þá koma ný hættumerki,“ segir hann.

Aðspurður á hann von á því að eldgosið muni halda áfram í einhverjar vikur í viðbót.

TF-SIF á flugi.
TF-SIF á flugi. mbl.is/Árni Sæberg
TF-SIF er vel tækjum búin.
TF-SIF er vel tækjum búin. mbl.is/Árni Sæberg
Ein af mörgum ratsjármyndum sem TF-SIF hefur tekið af gosstöðvunum …
Ein af mörgum ratsjármyndum sem TF-SIF hefur tekið af gosstöðvunum úr lofti. mynd/Landhelgisgæslan
Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Holuhrauni síðustu vikurnar. …
Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Holuhrauni síðustu vikurnar. Ágætlega sést til gossins á vefmyndavélum og virðist svipaður gangur í því og verið hefur undanfarið. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert