Vilja kanna „ósannsögli ráðherrans“

Píratar.
Píratar. mbl.is/Styrmir Kári

Þingmenn Pírata munu fara fram á að Alþingi taki nokkra þætti lekamálsins svonefnda til skoðunar. Nefna þeir þá helst „framgöngu ráðherrans gagnvart einstaka þingmönnum, ósannsögli ráðherrans á Alþingi og tilraun hans til hvítþvottar með svokallaðri „innri athugun“ ráðuneytisins.“

Í tilkynningu segja þingmenn Pírata að álit umboðsmanns Alþingis um samskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fv. innanríkisráðherra, við Stefán Eiríksson, fv. lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti fyrirliggjandi skilning þingmanna Pírata á þeim málsatvikum sem varði samskipti ráðherra við lögreglustjóra. „[Þ]að er að samskiptin hafi verið óeðlileg, andstæð reglum sem ráðherra bar að virða um sjálfstæði og hlutlægni lögreglunnar og brotið í bága við óskráða reglu stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni.“

Píratar telja að Alþingi þurfi að taka álit umboðsmanns til vandlegrar skoðunar og meta í framhaldinu til hvaða ráðstafana þurfi að grípa. „Álit Umboðsmanns lýtur einungis að afmörkuðum þætti lekamálsins, þ.e. samskiptum ráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu meðan á lögreglurannsókn um lekann stóð. Í krafti eftirlitshlutverks síns framkvæmdarvaldinu á Alþingi enn eftir að taka þá þætti til skoðunar sem legið hafa á ís frá því að Umboðsmaður tók að kanna samskipti ráðherra við lögreglustjórann. Má hér nefna t.d. framgöngu ráðherrans gagnvart einstaka þingmönnum, ósannsögli ráðherrans á Alþingi og tilraun hans til hvítþvottar með svokallaðri „innri athugun“ ráðuneytisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert