„Atlaga að þingræðinu“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Rósa Braga

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka ekki upp aðildarviðræður við Evrópusambandið sé atlaga að þingræðinu. Það er þingið sem ráði.

Í Sprengisandi á Bylgjunni fyrr í morgun sagði hann það svo sem ekkert nýtt að núverandi ríkisstjórn hunsaði vilja þjóðarinnar. „En að ætla að sniðganga þingið er algjörlega óverjandi og það kemur ekki til greina af hálfu Alþingis að sitja hjá og líta svo á að þetta sé bara í lagi, eitthvað minniháttar mál,“ sagði Helgi Hrafn.

Hann gagnrýndi einnig framgöngu forseta Alþingis harðlega, en sem kunnugt er hafnaði forsetinn að halda þingfund á föstudaginn vegna málsins.

„Ég hef margt gott um forsetann að segja en hann hefur algjörlega brugðist þinginu í þessu máli,“ sagði Helgi Hrafn og bætti við að stjórnarandstaðan myndi að sjálfsögðu ræða þetta mál á þingfundum í næstu viku, strax á morgun, mánudag. Málið snerist ekki lengur um Evrópusambandið sem slíkt.

Árétting á stefnunni

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði að það hefði verið ljóst frá upphafi að bréf Gunnars Braga Sveinssonar til fulltrúa Evrópusambandsins væri umdeilt og að menn hefðu skiptar skoðanir á því. „Ég met það nú þannig að menn séu að hafa uppi ansi mikil stóryrði án þess að tilefni sé fyrir því. Bréfið felur í sér að það er verið að skerpa og skýra stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum,“ sagði hann.

Er það mat Birgis að bréfið hafi ekki gefið tilefni til samráðs innan utanríkismálanefndar, sem skylt er samkvæmt þingskaparlögum. Ekki væri um að ræða stefnubreytingu, heldur áréttingu á þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar sem þegar lægi ljós fyrir og menn höfðu rætt um. Þess vegna hefði ekki verið skylda til að bera málið fyrir utanríkismálanefnd, þó svo að ljóst væri að nefndin myndi ræða málið vel og ítarlega í næstu viku.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert