„Vorum réttir menn á réttum stað“

Frá slysstað.
Frá slysstað. Ljósmynd/Víkurfréttir

„Þetta er ekki svona stór saga, við vorum bara réttir menn á réttum stað,“ segir Najdan Ilievski, annar tveggja manna sem lyftu bíl af konu á Garðskagavegi í gærkvöldi. Hann bað blaðamann mbl.is um að gera ekki of mikið úr þessu, enda hefði þetta verið sjálfsagður hlutur að gera.

Najdan og Nikola Tisma voru að keyra úr Ósabotnum þegar þeir sáu bílinn á hvolfi. Þeir heyrðu barnsgrát koma frá bílnum og segir Najdan að þeir hafi ekki hugsað neitt, heldur hafi þeir strax hugsað um að tryggja öryggi barnanna og lyftu bílnum yfir á fjögur dekk.

Tók 100 ár fyrir sjúkrabílinn að koma á vettvang

„Þá sjáum við að undir bílnum er kona,“ segir Najdan og bætir við að þeir hafi strax haft samband við Neyðarlínuna.

„Ég veit ekki hvað það tók langan tíma fyrir sjúkrabíl að koma á vettvang. Fyrir mér tók það svona 100 ár,“ segir Najdan og bætir við að hann myndi vilja biðja starfsmann Neyðarlínunnar afsökunar á því hversu stressaður hann hafi verið í gær, því hann var þá mjög ósáttur við allar þær spurningar sem hann var spurður að, án þess að vita hvort búið væri að senda sjúkrabíl af stað. 

Najdan er frá Serbíu og Nikola frá Króatíu en þeir hafa báðir búið á Íslandi í nokkurn tíma. Þeir voru að leita eftir minkasporum í Ósabotnum þegar þeir komu keyrandi að slysinu en þeir höfðu keyrt sömu leið tveimur tímum áður, áður en bílslysið varð. 

„Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst ef við hefðum ekki átt leið þarna hjá,“ segir Najdan. Aðspurður hvort bíllinn hafi ekki verið þungur segist hann ekki hafa pælt í því.

„Mér fannst það ekki á þeim tíma. Það hefði ekki skipt máli hvort þetta væri vörubíll eða lítill bíll. Við hugsuðum ekkert um þyngd bílsins,“ segir Najdan

Samsett mynd, Nikola Tisma (t.v.) og Najdan Ilievski (t.h.)
Samsett mynd, Nikola Tisma (t.v.) og Najdan Ilievski (t.h.) Ljósmynd/Najdan Ilievski
Ljósmynd/Víkurfréttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert