Tæknimenn RÚV funda í dag

Boðað verkfall tæknimanna á RÚV var dæmt ólöglegt í síðustu …
Boðað verkfall tæknimanna á RÚV var dæmt ólöglegt í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samninganefndir Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins funduðu hjá Ríkissáttasemjara í morgun og verður farið yfir stöðu mála í kjaradeilunni með tæknimönnum Ríkisútvarpinu síðar í dag. Á fundinum verður ákveðið hvort boðað verði til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun á ný. 

Félagsdómur úrskurðaði síðastliðinn miðvikudag að fyrirhugað verkfall tæknimanna á RÚV væri ólöglegt. Samtök atvinnulífsins hafa samningsumboð fyrir hönd RÚV og hefur Rafiðnaðarsambandið farið fram á að sérkjarasamningur verði gerður við tæknimennina. SA neitaði þeirri kröfu og kærði verkfallsboðun tæknimannanna.

Taka ákvörðun um næstu skref í dag

„Við fundum með okkar félagsmönnum hjá Ríkisútvarpinu síðar í dag. Við munum fara yfir stöðu mála og meta í kjölfarið hvaða skref verða stigin,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. Hann segir að koma muni í ljós á fundinum hvort kjósa þurfi um verkfallsboðun á ný.

Tveir formlegir fundir hafa farið fram í húsnæði Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilunnar eftir dóm Félagsdóms í síðustu viku og einnig nokkrir vinnufundir.

Kristján Þórður segir að tíminn hafi verið nýttur vel til viðræðna. „Okkur hefur þokað áfram. Það er spurning hvort það sé ásættanleg lending eða ekki, það mun koma í ljós á fundinum síðar í dag.“

Fréttir mbl.is um málið:

Atkvæðagreiðslur afturkallaðar

Telur kröfum tæknimanna mætt

Ólögmætið snýr að fjölda kjörkassa

Verkfallið ólöglegt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert