Sakar Íslendinga um hræsni

Marco hellti fimm lítrum af rauðum ávaxtalit í Strokk.
Marco hellti fimm lítrum af rauðum ávaxtalit í Strokk. Ljós­mynd/ face­book.com/​pages/​Marco-Evarist­ti

Listamaðurinn Marco Evaristti hyggst setja sig í samband við lögreglu þegar hann kemur hingað til lands til að vera viðstaddur fyrirtöku dómsmáls sem hann hyggst höfða í tengslum við sekt sem hann hlaut þegar hann litaði Strokk bleikan á dögunum.

Evaristti segist hafa fengið fjölda hótana í einkaskilaboðum á Facebook og vill ítreka að hann hafi ekki komið til Íslands með það í huga að valda tjóni. Hins vegar stendur hann fastur á því að biðjast ekki afsökunar, þar sem hann hafi ekkert gert af sér.

„Ég hef fengið margar hótanir,“ sagði Evaristti í samtali við mbl.is í gær. Hann sagði suma Íslendinga í svo miklu uppnámi vegna gjörningsins að þeir hefðu sent honum mjög ljót skilaboð, sem m.a. innihalda hótanir um barsmíðar og líflát.

Evaristti segist ekki óttast að viðkomandi láti af verða, en segir að hann muni engu að síður hafa samband við lögreglu næst þegar hann kemur til landsins, til vonar og vara. Hann segist ekki hafa í hyggju að kæra hótanirnar, en er hins vegar staðráðinn í því að fara með fyrrnefnda sekt alla leið í kerfinu, sama hvað það kostar.

Listamaðurinn segir Íslendinga hafa valdið sér vonbrigðum og gagnrýnir þá fyrir tvöfalt siðferði og hræsni. Þeir sjái ekkert að því að fólk kasti smámynt í hverina, en æsi sig svo yfir því að hann hafi sett ávaxtalit í Strokk, sem hann segir skaðlausan.

„Íslendingar ættu ekki að taka þetta svona alvarlega. Þið takið á móti 1,2 milljónum ferðamanna og auglýsið til að við eyðum a.m.k. þremur tímum í flugi á leið til landsins. Vitið þið hversu mikil mengun fer út í andrúmsloftið af því að þið laðið okkur ferðamennina að? Og ykkur er skítsama hvað við gerum til að heimsækja landið ykkar, en ykkur er ekki sama þótt bjáni eins og ég setji ávaxtalit í goshverinn ykkar. Þetta er tvöfalt siðferði. Og hræsni,“ segir Evaristti.

Honum kemur til hugar ítalskt máltæki: „Á Ítalíu segjum við: Ef þú vilt hreinsa rassgatið mitt, þá verður þú áður að læra að hreinsa eigið rassgat.“

Evaristti ítrekar að hann hafi ekki komið hingað til lands til að valda tjóni og segir verk sín og starf snúast um tjáskipti um náttúruna.

Spurður að því hvort hann hafi skilning á því að málið gæti verið tilfinningalegt fyrir suma heimamenn segir hann misskilning að Ísland tilheyri Íslendingum sérstaklega.

„Allir staðir tilheyra öllum. Við fæðumst á plánetu sem tilheyrir öllum,“ segir listamaðurinn. Hann segir að enginn geti ákveðið hver skuli búa hvar. „Við erum apar sem komu frá Afríku, og fórum um og numum staði sem við vildum búa á,“ segir hann.

Þá gagnrýnir Evaristti þá hugmynd að náttúran geta verið í eigu eins manns, og fordæmir framkvæmdir á hverasvæðum, þar sem peningar séu það eina sem ráði för.

Marco Evaristti á vettvangi.
Marco Evaristti á vettvangi. Ljós­mynd/face­book.com/​pages/​Marco-Evarist­ti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert