Viðskiptavinir sem fara og koma ekki aftur

„Þarna eru viðskipti sem fara og koma ekki aftur.
„Þarna eru viðskipti sem fara og koma ekki aftur." segir sölu- og markaðsstjóri Gray Line. mbl.is/Ómar

Fyrsta tólf klukkustunda verkfallshrina SGS hefst á hádegi á morgun. Þá munu rúmlega tíu þúsund félagsmenn leggja niður störf í á þriðja þúsund fyrirtækjum sem eru innan Samtaka atvinnulífsins. Verkfallaðgerðirnar ná ekki til höfuðborgarsvæðisins en munu líklega hafa gífurleg áhrif á landsbyggðina. Félagsmenn í verkalýðsfélögum sem fara í verkfall starfa í flestum atvinnugreinum á landsbyggðinni, m.a. fiskvinnslu, kjölvinnslu, í sláturhúsum, ferðaþjónustu og ræstingum.

Í gær var jafnframt sagt frá því að fjölmargar ferðir Strætó á landsbyggðinni falli niður. Leiðir 51,56,72,73,74, 75,78 og 79 munu ekki keyra á meðan verkfallsaðgerðunum stendur og flestar ferðir á leið 57.

„Verkfall SGS hefur ekki mikil áhrif á okkar kjarnastarfsemi nema á þann hátt að hópar og aðrir sem ætluðu að gista út á landi verða áfram í borginni,“ segir Þórir Garðarsson, sölu- og markaðsstjóri ferðaskrifstofunnar Gray Line. Hann segir að erlendir samstarfsaðilar ferðaskrifstofunnar séu órólegir vegna ástandsins en Gray Line þjónustar margar erlendar ferðaskrifstofur og hafa þurft að breyta ferðum fólks á fimmtudaginn. „Við finnum fyrir auknum áhyggjum erlendra söluaðila á þessu ótrygga ástandi. Við eigum von á afbókunum útaf þessum aðgerðum til lengri tíma.“

Slæmt fyrir orðspor Íslands

Að sögn Þóris munu ferðir ferðaskrifstofunnar um Gullna Hringinn svokallaða halda áfram þrátt fyrir verkfallsaðgerðir. „En það verður eitthvað um það að hópar sem ætluðu sér að gista út á landi þurfi að gista í borginni í staðinn. En við eigum ekki von á miklum breytingum á okkar kjarnastarfssemi,“ segir Þórir.

Aðspurður hvort að viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar sýni ástandi skilning svarar Þórir því játandi. „Fólk skilur að fyrirtækið sem slíkt getur ósköp lítið gert. En okkar áskorun er að sjálfsögðu til samningsaðila um að drífa sig að samningaborðinu og reyna að semja.“

Þórir segir að fólk innan ferðaþjónustunnar hafi miklar áhyggjur vegna ástandsins. „Þarna eru viðskipti sem fara og koma ekki aftur. Við veiðum ekki okkar kvóta einhvern tímann seinna, hann syndir bara hjá. Þetta er mjög slæmt fyrir orðspor okkar sem áfangastaðar.“

„Ég er helvíti öflug“

Auður Anna Ingólfsdóttir, hótelstjóri Hótel Héraðs á Egilsstöðum er bjartsýn á að það náist að semja. „Þetta mun væntanlega hafa áhrif á okkur ef af verður. En við erum svo ofboðslega bjartsýn hérna á Austurlandi og erum alveg viss um það verði bara samið í þessu verkfalli,“ segir Auður Anna og bætir við að á hótelinu séu margir viðskiptavinir Íslendingar sem vita af ástandinu. „En ég er hrædd um að stór hluti ferðamannanna hafi ekki hugmynd um þetta. En ég trúi því og treysti að skynsemin hjá verkalýðsforingjum og vinnuveitendum sé það mikil að það verði engin verkföll.“

Auður Anna hefur ekki gert sérstakar ráðstafanir vegna mögulegra aðgerða SGS. „Við höldum okkar striki,“ segir Auður Anna og bætir við að ekki standi til að loka hótelinu verði af verkfallsaðgerðunum á morgun. „Í raun yrðu það þá allir nema ég og kokkarnir sem myndu fara í verkfall. Ég ætla ekki að loka, ég er helvíti öflug og reyni að gera mikið sjálf. Ég mun allavega gera allt sem ég get til að halda opnu eins lengi og mögulegt er.“

Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Gray Line.
Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Gray Line.
Ekki stendur til að loka Hótel Héraði vegna verkfallsaðgerða SGS …
Ekki stendur til að loka Hótel Héraði vegna verkfallsaðgerða SGS á morgun. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert