Slökktu sinueldinn að nýju

Sinueldur sem brann á 10-12 hektara svæði við Stokkseyri í gærkvöldi, og kviknaði aftur í morgun, var slökktur á hádegi í dag. Lár­us Guðmunds­son, hjá Bruna­vörn­um Árnes­sýslu, segir vandlega hafa verið farið yfir svæðið og ólíklegt sé að eldur kvikni þar að nýju.

„Það er samt aldrei hægt að fullyrða það,“ segir hann. „Þetta var stórt svæði sem brann í gær svo það er erfitt að segja hundrað prósent til um það, en okkur sýnist vera að fara að rigna svo þá mun blotna upp í þessu.“

Talið er að sinu­eld­ur hafi kviknað á áttunda tímanum í gær er fugl flaug á há­spennu­línu. Ekki var hægt að koma neinum bílum eða öðrum tækjum á svæðið og gengu slökkviliðsmenn því um svæðið og börðu niður eldinn. Þá flaug starfsmaður Brunavarna yfir svæðinu í gær og gat leiðbeint slökkviliðsmönn­um á jörðu niðri þegar reyk­ur­inn varð svo þétt­ur að vart sást út úr aug­um.

Búið var að slökkva í síðustu glæðunum um klukkan 1 í nótt, en eldur kviknaði svo aftur á svæðinu um klukkan 10 í morgun að sögn Lárusar. Hann fór á svæðið ásamt 15-20 manna liði sem tókst að slökkva eldinn rétt fyrir hádegi. 

Umfang eldsins í morgun var mun minna en í gær og þökk sé meira logni var auðveldara að slökkva eldinn. Svæðið var þó mjög erfitt yfirferðar að sögn Lárusar en þar er mikið votlendi og mói sem erfitt sé að eiga við. Hins veg­ar hafi verið gripið til þess ráðs að fá lánaða kaj­aka hjá Kaj­a­k­leig­unni á Stokks­eyri og ferja slökkviliðsmenn yfir lít­il vötn sem eru úti um allt á svæðinu til að kom­ast nær eld­in­um.

Hann seg­ir að glóð geti lengi leynst í sinu enda hef­ur verið mjög þurrt á svæðinu und­an­farið.

Frétt mbl.is: Eldurinn kviknaði aftur

Frétt mbl.is: Fugl kveikti eld­inn

Frétt mbl.is: Mik­ill sinu­bruni við Stokks­eyri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert