Hafnað að hitta verjanda um helgi

Sigurður Einarsson og Gestur Jónsson koma til réttarsals við aðalmeðferð …
Sigurður Einarsson og Gestur Jónsson koma til réttarsals við aðalmeðferð málsins. Árni Sæberg

Verjandi Sigurðar Einarssonar, fv. stjórnarformanns Kaupþings, krafðist frávísunar á þætti Sigurðar í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í dag, en hann nefndi meðal annars að aðstaða fyrir skjólstæðing sinn hafi ekki verið boðleg sem hafi orsakað að Sigurður gat ekki setið réttarhöldin eins og honum er heimilt. Þá hafi fangelsisyfirvöld komið í veg fyrir að Sigurður og lögmaður hans gætu fundað helgina fyrir yfirheyrslu hans í málinu. Gestur Jónsson, sem er verjandi Sigurðar, segir þetta brjóta gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að fjárskortur geti ekki réttlætt slík brot.

Gestur nefndi í málflutningi sínum að hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi eigi ekki að njóta minni réttar en nefndur er í lögum, en þar kemur meðal annars fram að sakborningur eigi að hafa nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína.

Samskipti við fangelsisyfirvöld eftir frétt mbl.is

Vitnaði hann til bréfs sem hann sendi til Fangelsismálastofnunar 17. apríl á þessu ári, þar sem hann óskaði eftir flutningi á hverjum degi í dómsal fyrir Sigurð. Degi áður hafði mbl.is fjallað um að flutningar þeirra ákærðu sem sitja í fangelsi væri stórt vandamál fyrir stofnunina og að ómögulegt væri að flytja þá daglega milli Kvíabryggju og héraðsdóms, meðal annars vegna fjárskorts.

Svarið sem Gestur fékk frá Fangelsismálastofnun var á þá leið að ekki væri hægt að verða við beiðninni. Hann hafi aftur á móti fengið þann kost að vera vistaður í Hegningarhúsinu að Skólavörðustíg þar sem hann gæti fengið aðgang að tölvu. Gestur bætti reyndar seinna við að Sigurður átti sjálfur að skaffa tölvu og nettengingu, en á þeim stað þar sem hann átti að vera vistaður var ekkert netsamband að fá.

Ekki hægt að hvílast í Hegningarhúsinu í 5 vikur

Málið var áframsent af Gesti á saksóknara og dómsformann í málinu, en ákæruvaldið svaraði því til að það treysti stofnuninni til að komast að réttri niðurstöðu. Ekkert varð því úr að Sigurður fengi aðra aðstöðu, en Gestur sagði að af reynslu Sigurðar af húsinu við gæsluvarðhald sitt, þá væri ljóst að hann gæti ekki hvílst þar og slíkt væri ekki bjóðandi fyrir sakborning í máli sem tæki 5 vikur í aðalmeðferð. Sagði hann bæði aldur og heilsu Sigurðar spila inn í það mat.

Sú aðstaða sem Sigurði hafi boðist til að setja upp vörn sína í málinu hafi einnig verið óboðleg í Hegningarhúsinu, en Gestur vitnaði til viðtals við forstöðumann Hegningarhússins í Morgunblaðinu í apríl þar sem fram kom að aðstaðan þarna væri léleg. Þar sagði meðal annars: „hér er engin aðstaða til vinnu eða náms, þetta er eina tölvulausa fangelsið á landinu.“

Mannréttindi eiga að vera virt, en ekki tálsýn

Lét Gestur við upphaf málsins bóka skjal þar sem þessi framkvæmd var öll gagnrýn og í málflutningnum sagði hann að fjárskortur væri ekki gild afsökun stjórnvalds til að brjóta mannréttindi. Það hefði mannréttindadómstóllinn margsinnis dæmt um.  „Mannréttindi eiga að vera virt en ekki tálsýn,“ sagði Gestur.

Sagði hann þetta mun stærri spurningu en bara um þetta mál. Þetta væri spurning um það hvort við vildum búa í landi þar sem mannréttindi væru virt. „Er það þannig að það má bjóða manni upp á það að hann dvelji í fimm vikur á stað þar sem hann getur ekki hvílst?“ spurði Gestur og svaraði því að hann teldi svo ekki vera.

Hafnað að hitta verjanda sinn um helgi

Í þeim hluta Hegningarhússins sem hann átti að fá að hitta skjólstæðing sinn var ekki tölva, eins og áður kom fram og að mati Gests ekki boðleg. Óskaði hann þess að Sigurður fengi að koma á skrifstofu sína helgina áður en Sigurður átti að bera vitni fyrir dóminn. Var því hafnað en boðið að Sigurður yrði keyrður til höfuðborgarinnar á virkum degi. Benti Gestur á að slíkt væri ómögulegt, því á virkum dögum væri hann einmitt fastur í dómsal þar sem aðalmeðferð þessa máls væri í gangi og hann þyrfti að vera viðstaddur.  Sagði hann allt þetta hljóta að leiða til þess að málinu yrði vísað frá, enda hefðu réttindi Sigurðar ekki verið virt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert