Litla vörn löggjafans að engu höfð

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur snéri við dómi héraðsdóms í máli Vestmannaeyjabæjar gegn Síldarvinnslunni og Berg/Hugin. Fyrir héraðsdómi krafðist bærinn þess að samningur um kaup Síldarvinnslunnar á öllum eignarhlutum í Bergi/Hugin ehf. yrði ógiltur.

Dómur Hæstaréttar

Vestmannaeyjabær taldi sig njóta forkaupsréttar vegna kaupanna á grundvelli 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Í lagaákvæðinu segir:

  • „Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests.“

Hæstiréttur féllst ekki á þessa túlkun bæjarins. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að textaskýring á orðinu fiskiskip í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 gæti engum vafa valdið og að kaupsamningurinn hefði ekki verið gerður um fiskiskip heldur hlutabréf í Bergi/Hugin.

Lögin komin til ára sinna

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir lögin sem um deilir séu komin til ára sinna og í framhaldi af þessu sé boltinn algjörlega hjá þingmönnum og ráðherra málaflokksins, að taka málefnalega umræðu um það hvort að íbúar sjávarbyggða eigi að eiga einhvern rétt, því að sá réttur sem löggjafinn byggði í lögin á sínum tíma er ekki virkur. Það var niðurstaða Hæstaréttar.

„Niðurstaða Hæstaréttar er mjög skýr og í fullu samræmi við afstöðu okkar frá fyrsta degi. Eftir þrjú ár er staðfest að þeir sem komu að þessum viðskiptum störfuðu innan ramma laganna. Kveðið er mjög skýrt á um það að forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga snýr eingöngu að fiskiskipum en hvorki aflaheimildum né hlutabréfum. Þessi niðurstaða er góð fyrir Síldarvinnsluna,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar

Elliði var í kjölfar dómsins spurður hvort hann myndi ýta á lagabreytingar. „Við munum taka þátt í þessu samtali og væntanlega allar sjávarbyggðir. Þegar lögin voru sett á sínum tíma var þetta einn af grundvallarþáttunum og mikil umræða um þetta. Þegar frumvarpið kemur fyrst út úr nefnd hét þetta tilkynningarskylda en löggjafinn taldi brýnt að sjávarbyggði rættu rétt, að þeir breytti tilkynningarskyldu yfir í forkaupsrétt og skerptu þar á,“ segir Elliði í samtali við mbl.is.

Hann segir óvissu lengi hafa verið til staðar um raunverulegt gildi laganna. „Við vorum að vona, sérstaklega eftir sigurinn í héraðsdómi, vorum við að vona að lögin væru hreinlega þannig að það væri vörn að finna fyrir íbúa sjávarbyggða og nú verður bara löggjafinn að grípa hratt til ef hann á annað borð ætlar að tryggja þennan rétt sem er ekkert sjálfgefinn,“ segir Elliði. 

„Ég myndi segja að hagsmunir sjávarbyggða séu mjög brýnt forgangsmál sjávarútvegsráðherra og þingmanna. Við svo búið verður ekki lengur, að  sjávarbyggðirnar hafa greitt allan herkostnaðinn af hagræðingu sjávarútvegsins og nú er svo komið að það er  alltaf til nægt fjármagn í sjávarútvegnum til að standa undir arðgreiðslum til eigenda og ofurskatti til ríkisins en áfram blæðir sjávarbyggðunum.“

Samningurinn ekki ólíkur því sem gengur og gerist

„Ég vil þó að það komi skýrt fram að samningur milli Bergs-Hugins og Síldarvinnslunnar er ekki með neinum hætti ólíkur því sem gengur og gerist í kaupum og sölum á útgerðunum.  Það sem gerir þetta mál sérstakt eru viðbrögð Vestmannaeyjabæjar og ákvörðun bæjarstjórnar um að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort íbúar ættu vörn í lögum um stjórn fiskveiðar eða ekki,“ segir Elliði ennfremur í tilkynningu.

„Vestmannaeyjabær mun í framhaldi af þessum dómi óska eftir fundi með Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til að ræða þessi mál með það að leiðarljósi að treysta enn frekar hagsmuni sjávarbyggða og þar með sjávarútvegs á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert