Horfi til annarra samninga

Félagar í BHM og FÍH hafa mótmælt lagasetningu á verkfallsaðgerðir …
Félagar í BHM og FÍH hafa mótmælt lagasetningu á verkfallsaðgerðir þeirra við Alþingishúsið í morgun.

Gerðardómur mun ákveða kaup og kjör hjúkrunarfræðinga og félagsmanna BHM náist ekki samningar fyrir 1. júlí, samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar að lögum sem stöðva verkfallsaðgerðir þeirra. Dómurinn á meðal annars að horfa til annarra kjarasamninga sem þegar hafa verið undirritaðir.

Frumvarpið, verði það að lögum, bannar vinnustöðvanir aðildarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hafa staðið yfir frá því í byrjun apríl. Samkvæmt því mun gerðardómur sem Hæstiréttur tilnefnir þrjá menn í ákveða kaup og kjör félagsmanna félaganna hafi aðilar ekki skrifað undir samning fyrir 1. júlí.

Gerðardómurinn skal við ákvarðanir um laun félagsmanna og önnur starfskjör þeirra hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum, kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi. Við ákvarðanirnar skal jafnframt gæta að stöðugleika efnahagsmála.

Frumvarpið stöðvar verkfallsaðgerðir eftirfarandi hópa við gildistöku þess:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Dýralæknafélag Íslands, Félag geislafræðinga, Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Félag íslenskra hljómlistarmanna (Starfsmannafélag Sinfóníuhljóm­sveitar Íslands), Leikarafélag Íslands, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag lífeindafræðinga, Félag sjúkraþjálfara, Félagsráðgjafafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Ljósmæðrafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði, Stéttarfélag lögfræðinga og Þroskaþjálfafélag Íslands.

Afstýra tjóni og neikvæðum áhrifum á samfélagið

Í athugasemdum við frumvarpið segir að augljós hætta sé á að launahækkun til félagsmanna BHM og FÍH, umfram það sem þegar hefur verið samið um á almennum vinnumarkaði, hafi neikvæð áhrif á aðra kjarasamninga og stöðugleika á vinnumarkaði. Brýnt sé að launastefna hins opinbera komi ekki af stað gamalkunnum víxlhækkunum verðlags og launa sem aftur hefðu í för með sér aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Þessu frumvarpi sé ætlað að treysta forsendur stöðugleikans.

Sáttatilraunir hafi reynst árangurslausar og fyrirsjáanlegt sé að engin lausn finnist á vinnudeilunni í bráð. Brýnt sé að bregðast við til að afstýra tjóni og neikvæðum áhrifum á samfélagið. Er meðal annars vísað til minnisblaða landlæknis um ástand í heilbrigðiskerfinu vegna verkfalla heilbrigðisstarfsmanna.

Í frumvarpinu kemur einnig fram að samkvæmt upplýsingum frá aðilum vinnumarkaðarins kveða samningar sem SA og stór verkalýðsfélög náðu saman um í lok maí á um hækkun launa sem nemur um 17–20% á samningstímabilinu.

„Þessir kjarasamningar og aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu reyna á þanþol hagkerfisins. Þannig hækkaði verðbólguálag á skuldabréfamarkaði í kjölfar samninganna og talið er óhjákvæmilegt að samningarnir leiði til aukinnar verðbólgu og hækkunar vaxta,“ segir í frumvarpinu.

Frumvarp um kjaramál FÍH og BHM

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert