Laun forstjóra ekki á skriði

Forsíða Tekjublaðsins í ár.
Forsíða Tekjublaðsins í ár.

Svo virðist sem launaskrið á meðal tekjuhæstu forstjóra landsins hafi stöðvast. Þetta segir Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, en tekjublaðið kom út í morgun, þar sem birtar eru tekjur 3.725 einstaklinga víðs vegar af landinu.

Jón segir að meðallaunatekjur 200 efstu forstjóranna í almennum fyrirtækjum séu engu að síður góðar, eða 2,6 milljónir króna að jafnaði á mánuði, eða það sama og í fyrra. Næstráðendur, sem hafi tekið risastökk upp í launatekjum í fyrra, og fóru úr 1,6 milljónum króna á mánuði í 2,2 milljónir króna, hafi haldist áfram í því þrepi; með 2,2 milljónir króna að jafnaði.

Í flokki forstjóra í almennum fyrirtækjum voru 75 konur af 450 í öllu úrtakinu. Launatekjur þeirra voru að jafnaði um 1.445 krónur á mánuði á meðan meðaltal úrtaksins var 1.794 þúsund krónur á mánuði.

Jón bendir þó á að fjórir efstu næstráðendurnir á listanum skekki myndina verulega og því hafi þeir verið teknir út úr úrtakinu áður en meðaltekjur voru reiknaðar út. Eins hafi tveir efstu í flokki forstjóra skekkt meðaltalið og voru teknir út áður það var reiknað.

Sjómenn virðist hafa lækkað verulega í launatekjum, að sögn Jóns, en þeir tvö hundruð efstu eru með um 400 þúsund krónur minna á mánuði í fyrra en árið þar á undan.

Þá birtir Frjáls verslun í fyrsta sinn sérstakan lista yfir hjúkrunarfræðinga, margir hverjir í stjórnunarstöðum, og reyndust meðallaunatekjur þeirra vera 791 þúsund krónur á mánuði.

Starfsmenn í fjármálafyrirtækjum virðst hafa hækkað mest í launatekjum. Tvö hundruð efstu í þeim flokki fara úr 1,9 milljónum króna á mánuði í 2,1 milljón króna að jafnaði á mánuði.

Nauðsynlegt er að árétta að um er að ræða útvarsskyldar tekjur á árinu 2014 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert