„Í algerri andstöðu við norrænu leiðina“

VG skora á Íslandsdeild Amnesty að beita sér gegn tillögunni.
VG skora á Íslandsdeild Amnesty að beita sér gegn tillögunni. Ljósmynd/Árni Torfason

Stjórn Vinstri grænna skorar á Íslandsdeild Amnesty International að beita sér gegn samþykkt tillögu þess efnis að vændi verði gefið frjálst með öllu. Alþjóðahreyfing Amnesty mun fjalla um tillöguna um helgina en í henni fellst að kaup, sala, milliganga og rekstur vændishúsa verði gefið frjálst. Segir í tilkynningu Vinstri grænna um málið að slík tillaga sé í algerri andstöðu við norrænu leiðina sem m.a. hefur verið farin hér á landi í baráttunni gegn vændi og mansali.

„Lög um bann við kaupum á vændi voru samþykkt árið 2009 af fulltrúum allra flokka á Alþingi utan eins. Lagasetningin var pólitísk yfirlýsing gegn kaupum á líkama fólks í kynferðislegum tilgangi, til að draga úr eftirspurn og til að tryggja réttarstöðu og þjónustu við vændisfólk. Kannanir hafa sýnt að meirihluti landsmanna, karla og kvenna og fólks úr öllum flokkum er hlynnt þeirri leið sem þar var farin,“ segir í tilkynningunni.

„Stjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs tekur undir áskorun kvennahreyfingarinnar um að Íslandsdeild Amnesty beiti sér gegn samþykkt tillögunnar. Norræna leiðin er þekkt um allan heim sem sú árangursríkasta og réttlátasta í baráttunni gegn vændi og mansali og jafnréttisnefnd Evrópuþingsins hefur mælst til þess að aðildarlöndin fari þessa leið eftir að hafa gert úttekt á ólíkum leiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert