Bjarni: Efasemdir um þvinganirnar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann hafi verið hugsi yfir því hvort rétt sé af hálfu Íslendinga að taka þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins og vesturvelda gagnvart Rússlandi. Segir hann þörf á að meta stöðuna eftir því sem þvingununum vindur áfram og gerðar eru breytingar á þeim.

Í samtali við mbl.is segir Bjarni að hann hafi gert grein fyrir efasemdum sínum um málið á ríkisstjórnarfundum þegar það var rætt.  Bendir hann á að þvinganirnar hafi breyst mikið frá því að þær voru fyrst samþykktar. Þá hafi aðeins verið um að ræða frystingu á eignum nokkurra rússneskra ráðamanna, en í dag séu þær mun víðtækari.

Ættum að gefa betri gaum að því hvað sé verið að styðja

Segir Bjarni að endurskoða hefði átt málið þegar á leið og sérstaklega eftir að Rússar ákváðu að fara í gagnaðgerðir. Þannig telur hann að Íslendingar þurfi að gefa því betri gaum hvað það sé nákvæmlega sem þeir séu að styðja í þessum þvingunum.

Bjarni tekur fram að hann og allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins séu einhuga um að fordæma aðgerðir Rússa í Úkraínu. Málið núna varði aftur á móti mikla hagsmuni fyrir Íslendinga. „Við þurfum að meta það eftir því sem aðstæður breytast og þær hafa gert það,“ segir hann.

Rétt forgangsröðun utanríkisráðherra

Aðspurður hvort hann teldi að Íslendingar ættu að draga stuðning sinn við aðgerðirnar til baka segist Bjarni vera sáttur við forgangsröðun utanríkisráðherra um að láta fyrst reyna á samstöðu þeirra ríkja sem við erum í mestu samstarfi við, en meðal annars hefur verið rætt um breytingar á tollum á ákveðnar sjávarafurðir. Segist Bjarni þó áskilja sér rétt til að meta stöðuna á hverjum tímapunkti ef breytingar verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert