Tíu vilja bók Lagercrantz á miðnætti

Noomi Rapace og Michael Nyqvist í hlutverkum Lisbeth Salander og …
Noomi Rapace og Michael Nyqvist í hlutverkum Lisbeth Salander og Mikael Blomkvist í myndinni Menn sem hata konur.

Tíu manns vilja fá bók Davids Lagercrantz Það sem ekki drepur þig senda heim að dyrum eftir miðnætti annað kvöld. Í heildina hafa sextíu manns pantað bókina í forsölu hjá Heimkaupum en tvö hundruð eintök eru í boði. Bókin kemur út á miðnætti annað kvöld í 37 löndum.

Mikil leynd hefur hvílt yfir bókinni og mun starfsmaður Heimkaupa sækja bækurnar til bókaútgáfunnar Bjarts á miðnætti, fyrr verða þær ekki afhentar. Útgefendur þurftu að skrifa undir þagnareið en mikil áhersla hefur verið lögð á að innihald bókarinnar spyrjist ekki út.

Skrifaði á tölvu án internettengingar

David Lagercrantz, sem er þekktastur fyrir að hafa skrifað ævisögu knattspyrnumannsins Zlatan Ibrahimowic, skrifaði handrit bókarinnar á tölvu án internettengingar og afhenti það útprentað. Sagt er frá tvíeykinu Lisbeth Salander og Mikael Blomquist líkt og í Millennium-þríleik Stieg Larsson og er haldið áfram þar sem skilið var við þau í bókinni Loftkastalinn sem hrundi.

Bókin er í þykkari kantinum, eða um 500 blaðsíður. Ættingjar Stieg Larsson gáfu grænt ljós á útgáfu bókarinnar en kærasta hans Eva Gabrielsson hefur gagnrýnt hana harðlega.

Larsson giftist aldrei kærustu sinni til 32 ára, Evu Gabrielsson og erfðu því faðir hans og bróðir höfundarréttinni að bókum hans. Millennum-bækurnar hafa selst í 75 milljónum eintaka og verið þýddar á 40 tungumál. Þá hafa bækurnar einnig verið kvikmyndaðar.

Fékk ekki að leika sér með hugmyndir Larsson

Larsson var aðeins fimmtugur þegar hann lést 9. nóvember árið 2004 í Stokkhólmi. Hann fékk hjartaáfall eftir að hafa gengið upp stiga að skrifstofu sinni en sem lyftan í húsinu var biluð.

Svo virðist sem ástæða þess að Larsson og Gabrielsson gengu aldrei í hjónaband hafi verið að samkvæmt þágildandi lögum þurftu hjón að gefa upp heimilisfang sitt. Larsson var oft hótað lífláti og því töldu þau of mikla áhættu að gifta sig og þurfa að gera þessar upplýsingar opinberar.

Gabrielsson hefur greint frá því að hún eigi uppkast að fjórðu bók Larsson í bókaröðinni en hún vilji ekki opinbera það. Lagercrantz fékk því ekki að leika sér með hugmyndir Larsson, heldur skrifað bókina út frá eigin hugmyndum með leyfi föður og bróður Larsson. Gabrielsson er mótfallin útgáfu fjórðu bókarinnar sem hún segir aðeins vera peningaplokk. Lagercrantz vísar því hinsvegar á bug og segir verkefnið ekki snúast um peninga.  

Stieg Larsson lést árið 2004, fimmtugur að aldri.
Stieg Larsson lést árið 2004, fimmtugur að aldri. Mynd/Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert