Ákæran vonbrigði

Dótturfélag Landsbankans í Lúxemborg er sakað um að hafa blekkt …
Dótturfélag Landsbankans í Lúxemborg er sakað um að hafa blekkt viðskiptavini sína fyrir hrun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Enginn fótur er fyrir ásökunum í ákæru fransks rannsóknardómara gegn fyrrverandi eiganda og stjórnendum Landsbankans, að sögn Gunnars Thoroddsen, fyrrverandi yfirmanns hjá bankanum í Lúxemborg sem er á meðal ákærðra í málinu. Hann segir ákæruna koma á óvart og vera vonbrigði.

Níu forsvarsmönnum Landsbankans í Lúxemborg er gefið að sök að hafa beitt viðskiptavini bankans sem tóku tiltekna tegund veðlána blekkingum. Á meðal þeirra eru Björgólfur Guðmundsson, sem þá var aðaleigandi Landsbankans, og Gunnar.

Gunnar segist ekki hafa séð ákæruna ennþá en honum skiljist að verið sé að þýða hana yfir á ensku.

„Í rauninni kemur þetta mér á óvart og það eru talsverð vonbrigði að menn hafi ákveðið að fara af stað með málið sem ég held að sé enginn fótur fyrir. Það er að minnsta kosti ekkert sem ég hef séð, engir tölvupóstar, gögn, samtöl eða neitt slíkt, sem staðfestir að eitthvað misjafnt eða óheiðarlegt hafi átt sér stað,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

Fjármagnaði sig ekki með veðlánunum

Að því er kemur fram í frétt AFP af málinu segir í ákærunni að bankinn hafi veitt misvísandi upplýsingar um stöðu sína og að lánveitingunum hafi fyrst og fremst verið ætlað að hjálpa erfiðri lausafjárstöðu bankans.

Gunnar segir hins vegar að einu upplýsingarnar sem bankinn hafi veitt viðskiptavinum um stöðu sína hafi byggst á endurskoðuðum reikningum sem lágu alls staðar fyrir um fjárhagsstöðu bankans. Þá sé það grundvallarmisskilningur að bankanum hafi einhvern veginn tekist að fjármagna sig með peningum sem viðskiptavinir sem tóku veðlánin hafi haft í eignastýringu.

„Það er bara ekki þannig að peningar í stýringu séu innan efnahags bankans og notaðir til að fjármagna hann. Þeir eru utan efnahags,“segir Gunnar.

Þessi fjármálaafurð hafi þar að auki verið í boði löngu áður en lausafjárkrísa bankanna kom til, bæði hjá Landsbankanum og fjölmörgum samkeppnisaðilum hans, þar á meðal hjá frönsku bönkum.

Fyrri fréttir mbl.is:

Misvísandi upplýsingar um stöðu bankans

Björgólfur ákærður í Frakklandi

Gunnar Thorodd­sen
Gunnar Thorodd­sen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert