„Engin einkavæðing án trausts“

Fjárlaganefnd Alþingis kallaði forstjóra Bankasýslu ríkisins á fund sinn í morgun þar sem spurt var út í hvaða rök hafi verið að baki því að selja hluta af hlutabréfum Arion banka á undirverði til tiltekinna aðila. Bankasýslan gat ekki sagt til um hvað Arion banki lagði til grundvallar ákvörðun sinni.

Frétt mbl.is: Símasalan er til skoðunar

Salan á hlutnum fór fram á mun lægra gengi en fjárfestum bauðst í útboðinu. Í spurningum sem Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar sendi á Bankasýsluna fyrir nokkru er því meðal annars velt upp hvort bankinn hafi orðið uppvís að markaðsmisnotkun í söluferlinu.

Guðlaugur Þór segir að forsvarsmenn Bankasýslu ríkisins hafi ekki getað upplýst fjárlaganefnd um hvað bjó að baki þeirri ákvörðun að selja hlutabréf í Símanum á undirverði. Hann segir eitt markmiða í eigendastefnu ríkisins sem Bankasýslan eigi að starfa eftir að auka traust almennings á fjármálakerfinu. Þessi vinnubrögð séu ekki til þess fallin.

„Þeir svöruðu engu,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is. Hann vísaði þá í eigendastefnuna á fundinum, en forsvarsmenn Bankasýslunnar gátu engin svör gefið þar sem þeir hefðu þau ekki. Hann sagðist því ætla að senda þeim aðra spurningu þar sem farið væri fram á að Bankasýslan afli upplýsinga hjá Arion banka um söluferlið eða gefi út að ekki sé hægt að nálgast þessar upplýsingar.

„Ég get ekki séð að við getum byggt upp traust og trú á íslenskum fjármálamarkaði nema að upplýsa um hluti eins og þessa,“ sagði Guðlaugur. „Samkvæmt eigendastefnunni er ekki annað að sjá en að Bankasýslan verði að upplýsa um þetta.“

Guðlaugur Þór segir að ef ekki ríki traust um fjármálafyrirtæki sé ljóst að lítið verði af einkavæðingu á næstunni. „Vandinn er að það er ekki hægt að einkavæða fjármálastofnanir ef fólk hefur ekki sannfæringu fyrir því að þetta sé opið og gagnsætt og farið eftir skýrum verklagsreglum. Það er engin einkavæðing án trausts,“ sagði Guðlaugur Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert