Arion: Salan misráðin

Orri Hauksson, forstjóri Símans, hringir félagið inn í Kauphöllina.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, hringir félagið inn í Kauphöllina.

Arion banki hefur greint frá samsetningu annars fjárfestahópsins sem bauðst að kaupa hlutabréf í Símanum á lægra gengi og segir að sala til viðskiptavina skömmu fyrir útboð hafi verið misráðin. Verklagi varðandi sölu á stærri eignarhlutum verður breytt í kjölfarið.

Í yfirlýsingu frá Arion segir að salan á 31 prósent hlut í Símanum hafi verið í samræmi við stefnu stjórnar bankans um að koma yfirteknum félögum í óskyldum rekstri í sem breiðast eignarhald og að mikilvægt hafi verið talið að tryggja fagþekkingu í hópnum.

Líkt og fram hef­ur komið seldi bank­inn fjár­festa­hópi sem for­stjóri Sím­ans setti sam­an um 5% hlut í fyr­ir­tæk­inu á geng­inu 2,5. Hlut­inn má ekki selja fyrr en 1. janú­ar 2017. Skömmu síðar seldi bank­inn völd­um hópi viðskipta­vina sinna 5% hlut í Sím­an­um á geng­inu 2,8 en þeir verða að halda á hlutn­um í þrjá mánuði.

Meðaltals­gengi í útboðinu reynd­ist 3,33 krón­ur á hlut og því ligg­ur fyr­ir að vald­ir aðilar fengu hlut í bank­an­um á lægra gengi en al­menn­ir fjár­fest­ar.

Ekki heppilegt

.„Salan á Símanum tókst á heildina litið vel og bankinn náði fjárhagslegum markmiðum sínum, en réttmæt gagnrýni hefur komið fram á tiltekinn þátt söluferlisins sem snýr að sölu til viðskiptavina bankans stuttu fyrir útboð. Því verður verklagi varðandi sölu á stærri eignarhlutum breytt,“ segir í yfirlýsingu.

„Sú gagnrýni að ekki hafi allir setið við sama borð hefur ekki farið framhjá stjórnendum bankans. Ekki var heppilegt að selja til viðskiptavina bankans svo skömmu fyrir útboðið á gengi sem svo reyndist nokkuð lægra en niðurstaða útboðsins. Bankinn vanmat hina miklu eftirspurn sem raun varð á. Þessi tilhögun er til skoðunar í bankanum og verður tekið mark á gagnrýninni.“

Frágangur dróst

Arion útskýrir að sölugengið 2,5 til fjárfestahópsins, sem Síminn setti saman, hafi verið ákveðið í maí samræmi við verðmat á Vodafone á þeim tíma. Því hafi ekki verið um afslátt að ræða og þá sérstaklega í ljósi 18 mánaða söluhamla. Hins vegar hafi frágangur viðskiptanna dregist, m.a. vegna nokkurs fjölda erlendra kaupenda frá ýmsum löndum. Af þeim sökum hafi ekki verið tilkynnt um viðskiptin fyrr en í ágúst „og var sú töf óheppileg,“ segir Arion og bætir við að bankinn hafi ekki komið að fjármögnun þessara viðskipta. 

Þá segir að í framkominni gagnrýni á verð í þessum viðskiptum hafi verið horft fram hjá þróun hlutabréfamarkaðarins og Vodafone á þessu tímabili þar sem hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um 20 prósent og markaðsvísitalan um 23 prósent frá því í lok maí, þegar ákveðið var að selja þennan 5 prósent hlut í Símanum.

Varðandi hinn fjárfestahópinn, þ.e. viðskiptavini Arion, segir bankinn að gengið hafi verið í lægri enda verðbils útboðsins og metið sanngjarnt meðal annars vegna reynslu af fyrri útboðum og vegna söluhamla á hlutunum. Ætlunin hafi verið að gefa þessum aðilum kost á að kaupa nokkru stærri hlut en ella. Bankinn fjármagnaði aðeins lítinn hluta þessara viðskipta.

Fjárfestahópurinn

Í yfirlýsingu Arion er greint frá samsetningu fjárfestahópsins sem Síminn setti saman. Þar segir:

„Bertrand Kan er í forsvari fyrir fjárfestahópinn (L1088 ehf.). Stærsti eigandi innan hópsins er Æðarnes ehf. Það félag er í eigu Sigurbjörns Þorkelssonar, Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar. Aðkoma Sigurbjörns lá fyrir við ákvörðun um söluna til fjárfestahópsins en aðkoma Árna og Hallbjörns lá fyrir við frágang viðskiptanna. Aðrir innlendir eigendur að L1088 ehf. eru félög í eigu Stefáns Ákasonar og Ómars Svavarssonar, fyrrverandi forstjóra Vodafone og núverandi stjórnarmanns Föroya Tele.“

„Þeir erlendu aðilar sem koma að L1088 ehf. eru alþjóðlegir fjárfestar með reynslu úr fjarskiptum. Þar má m.a. nefna fyrrnefndan Bertrand Kan sem er fyrrum yfirmaður hjá deild Morgan Stanley er sérhæfði sig í ráðgjöf við fjárfestingar í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækjum. Hann er nú einkafjárfestir. Bertrand stýrði m.a. einkavæðingarferli Símans árið 2005 og þekkir vel til rekstrar og starfsemi fjarskiptafélaga um allan heim. Einnig er þar Kaj-Juul Pedersen sem er fyrrum yfirmaður hjá Ericsson og síðar Telia. Kaj var stjórnarformaður Netia í Póllandi þegar félagið var skráð á Nasdaq hlutabréfamarkaðinn. Að L1088 ehf. kemur einnig Joe Ravitch sem er einn af stofnendum Raine Group en áður var hann m.a. yfirmaður hjá Goldman Sachs á sviði sem sérhæfði sig í ráðgjöf vegna fjárfestinga í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækjum.“

Arion segir að verklagi verði breytt.
Arion segir að verklagi verði breytt. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka