Fyrsta skrefið í átt að hagkvæmum húsnæðum

Yfirskrift fundarins var Vandað, hagkvæmt, hratt. Hugmyndin er að fá …
Yfirskrift fundarins var Vandað, hagkvæmt, hratt. Hugmyndin er að fá alla hlutaðeigandi að borðinu til að finna lausnir til að lækka húsnæðisverð. Eggert Jóhannesson

Breytingar á byggingarreglugerð, lægri fjármagnskostnaður, aukið framboð lóða, betri nýting rýma og bætt skipulag á sveitastjórnarstigi. Þetta var meðal þeirra atriða sem bent var á að þyrfti að takast á við á upphafsfundi þriggja ráðherra um aðgerðir á sviði húsnæðismála. Yfirskrift fundarins var „Vandað, hagkvæmt, hratt“ en á fundinum kom fram að húsnæðismálin væru eitt mest aðkallandi mál sem Íslendingar stæðu nú frammi fyrir.

Aðgerðir í kjölfar kjarasamninga í vor

Það eru ráðuneyti húsnæðismála, umhverfismála og iðnaðar ásamt undirstofnunum og Samtökum iðnaðarins sem stóðu að fundinum og verkefninu í heild. Nokkur hundruð manns mættu á hann, meðal annars allir helstu hagsmunaaðilar sem málið snertir, svo sem verktakar, forsvarsmenn leigufélaga, sveitastjórnarmenn, forsvarsmenn ríkisstofnana, arkitektar, starfsmenn fjármálafyrirtækja og aðilar frá hagsmunasamtökum.

Hönnunarsamkeppni um hagkvæmar lausnir

Í kynningu fyrir fundinn kom fram að tilgangurinn væri að stilla saman strengi allra þeirra sem þurfa að koma að verkefninu, en í kjarasamningum í vor samþykkti ríkisstjórnin að fara í aðgerðir á sviði húsnæðismála. Á fundinum var unnið með svokölluðu þjóðfundarfyrirkomulagi, en fólki var skipt niður á borð þar sem hugmyndavinna átti sér stað um helstu verkefnin framundan og voru þau mál öll skráð niður og er hugmyndin að vinna með þau í framhaldinu.

Kemur sú framhaldsvinna í hlut Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ), en Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri stofnunarinnar, segir í samtali við mbl.is að þegar niðurstöðurnar hafi verið dregnar saman verði farið í hönnunarsamkeppni á íbúðum eða lausnum í húsnæðismálum í anda fundarins.

Opið bókhald og byrja á réttum enda

Miðað við þær hugmyndir sem fundarmenn kynntu stuttlega í lok fundarins  er ljóst að samkeppnin mun miða að hagkvæmum lausnum í húsnæðismálum. Til viðbótar við þau atriði sem voru nefnd í upphafi fréttarinnar sögðust fundarmenn meðal annars telja að auka þyrfti fjármagn til ákveðinna rannsóknastofnana, passa upp á fjölbreytt húsnæðisform og að sveigjanleiki væri á markaðinum eftir fjölskyldustærð. Einn nefndi að verktakar þyrftu að sýna samfélagslega ábyrgð og opna bókhaldið hjá sér til að sýna fram á að möguleg lækkun kostnaðar kæmi inn í verð íbúða og þá nefndu þó nokkrir að byrja þyrfti á hinum endanum, þ.e. skoða hver raunveruleg eftir spurn eftir mismunandi húsnæði er og hvað það er sem fólk geti borgað fyrir húsnæði. Með þær upplýsingar ættu svo allir hluteigandi aðilar að vinna út frá

Segir Þorsteinn að sett verði upp klasasamstarf í kringum byggingarrannsóknir innan NMÍ, þar sem komið verði á samstarfi ráðuneytanna, undirstofnana og Samtaka iðnaðarins, auk aðila sem verða fengnir með að borðinu.

Þorsteinn segist eiga von á því að drög að samkeppninni verði lögð fram fyrir áramót og að keppnin verði í vetur. „Ég vil alls ekki sjá þetta sem skýrslu sem endar upp í hillu,“ segir hann.

Stórir árgangar á leiðinni á markaðinn

Ráðherrarnir Eygló Harðardóttir, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Sigrún Magnúsdóttir sátu fundinn og fóru stuttlega yfir stöðuna í byrjun hans. Eygló sagði markmiðið vera þjóðarátak til að lækka byggingarkostnað. Sagði hún allavega 10 til 15 aðila koma að hverri nýbyggingu og að mikilvægt væri að hver og einn þeirra myndi leita leiða til að lækka kostnaðinn. Sagði hún að ofan á stöðuna í dag, þar sem vöntun væri á ákveðnum stærðum húsnæðis, þá væru stórar kynslóðir að koma á markaðinn.

Ragnheiður sagði ánægjulegt að sjá þessi þrjá ráðherra vinna saman að þessu málefni auk fólks allsstaðar úr þjóðfélaginu. Sagði hún mikilvægt að horft væri vel til hönnunarþáttarins í þessu máli, bæði arkitekta og hönnuða þannig að það besta væri fengið út á endanum. Ragnheiður léði því einnig máls á því að auka þyrfti byggingarannsóknir og sagði í léttum tóni að hún og Þorsteinn myndu á næstunni setjast niður og ræða fjármálin í kringum það nánar.

Mygla ofarlega í huga „mygluráðherra“

Sigrún sagði mikilvægt að hugað væri að samvinnu í þessu máli og ekki síður að hugað væri að því sem reynst hefði vel hér á landi í gegnum árin og að þekking og reynsla væri notuð í stað þess að flytja inn hugmyndir sem ekki hefðu verið reyndar hér. Sagði hún að sem „mygluráðherra,“ væri sá málaflokkur einnig ofarlega í huga sér og passa þyrfti upp á gæði þótt reynt væri að lækka kostnað.

Húsnæðismálin voru rædd í þaula á yfir 20 borðum á …
Húsnæðismálin voru rædd í þaula á yfir 20 borðum á fundinum. Eggert Jóhannesson
Þótt skiptar skoðanir væru um ýmis mál virtist sem allir …
Þótt skiptar skoðanir væru um ýmis mál virtist sem allir væru sammála um hvað væru helstu hindranirnar í málinu. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert