Horfði á mann deyja

„Ástandið þarna er ömurlegt. Ég fór oft að grenja í þessari ferð. Þetta var einhvern veginn of mikið. Einn daginn dó gamall maður fyrir framan mig á ströndinni. Hann var kominn á land en hneig bara niður og reis ekki upp aftur. Mun yngri manni var naumlega bjargað, aldraður danskur læknir náði að hnoða í hann lífi. Geðshræringin er svo mikil að sumum er þetta einfaldlega um megn.“

Þannig lýsir Páll Stefánsson ljósmyndari aðstæðum á Lesbos en hann er nýkominn heim eftir vikudvöl á grísku eyjunni, þangað sem flóttamenn hafa streymt undanfarnar vikur.

Páll kom til Lesbos í byrjun október og á þeim tíma voru 7.500 flóttamenn að koma til eyjunnar á degi hverjum. Á ári gerir það 2,7 milljónir, með sama áframhaldi. Hann segir átakanlegt að fylgjast með þessu fólki. Fyrst gráti það af gleði yfir að hafa komist heilu og höldnu til Evrópu en tárin litist þó fljótt af örvæntingu. „Fljótlega eftir komuna rennur upp ljós fyrir fólki; það er farið frá heimalandinu og á mögulega aldrei eftir að snúa þangað aftur. Þess utan hefur fólk litla hugmynd um hvað bíður þess. Það er auðvitað áfangasigur að komast til Lesbos en samt er svo margt eftir. Fólk á eftir að koma sér til Aþenu og þaðan áfram upp Balkanskagann, gegnum Ungverjaland og Austurríki, vel yfir þúsund kílómetra, oft á tveim jafnfljótum. Þetta er hrikalegt,“ segir Páll.

Nánar er rætt við Pál í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og fjöldi mynda eftir hann birtur.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert