Endurhæfing Katrínar Bjarkar gengur framar björtustu vonum

Katrín á köld­um en fal­leg­um degi við Önund­ar­fjörð.
Katrín á köld­um en fal­leg­um degi við Önund­ar­fjörð. Ljósmynd/ Styrktarsjóður Katrínar Bjarkar

 Endurhæfing Katrínar Bjarkar Guðjónsdóttur gengur framar björtustu vonum. Svo segir í fréttatilkynningu frá stjórn styrktarsjóðs hennar á bb.is en eins og greint var frá í ágúst var hinni 22 ára Flateyrarmær „kippt úr hringiðu lífsins, þegar hún fékk heilablæðingu í annað sinn á hálfu ári þann 14. júní síðastliðinn.

Frétt mbl.is: Kippt úr hringiðu lífsins

„Við upphaf endurhæfingar var hreyfi- og talgeta hennar nánast engin,“ segir í tilkynningu stjórnar styrktarsjóðsins þar sem fram kemur að Katrín hefur notið aðhlynningar og endurhæfingar frábærs starfsfólks á Grensásdeild Landsspítala frá byrjun septembermánaðar.

„Í dag er hún búin að ná undraverðri endurhæfingu varðandi hreyfigetu. Katrín Björk er einstaklega glaðvær, kraftmikil og jákvæð, sem leggur auðvitað grunninn að hennar bata. En það er ekki síður sá víðtæki stuðningur sem hún hefur notið í samfélaginu, í gegnum tengslanet sitt, vini og kunningja, stuðningsaðila styrktarsjóðsins, hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu og stuðningsaðila þeirra, sem kraftur hennar hefur augljóslega notið góðs af.“

Frétt mbl.is: „Við vökum yfir henni“

Segir einnig að augljóst sé að dagleg umönnun, hvatning og stuðningur Ásgeirs unnusta hennar og Bjarnheiðar móður hennar auk fjölskyldna hennar og Ásgeirs hafi haft ótrúlega jákvæð áhrif á Katrínu og hennar bata.

„Hugur hennar og hugsun er algerlega skýr og hún hefur engu gleymt, hún er sami grallarinn og áður og hún mun ná fullum bata með sama áframhaldi.“

Fréttatilkynningin er send út í tilefni af styrktartónleikum sem hópur stuðningsmanna hennar utan stjórnarinnar hefur efnt til. Tónleikarnir fara fram þann 8. nóvember í Ísafjarðarkirkju kl. 17:00 og mun Flateyrarhljómsveitin syngja og leika óskalög Katrínar með fulltingi Kvennakórs Ísafjarðar, Nótukórsins, Sunnukórsins auk Karlakórsins Ernis.

Í tilkynningu stjórnar styrktarsjóðsins eru tónleikahöldurum færðar fyrirfram þakkir fyrir þá miklu vinnu sem slíkur atburður krefst og þann velvilja og stuðning sem í starfinu felst. Er þess einnig getið að á tónleikunum verður flutt kveðja frá Katrínu Björk sem hún hefur samið af mikilli einlægni og natni orð fyrir orð. 

Aðgangseyrir er 2.500 en tekið verður á móti frjálsum framlögum á tónleikunum og hægt er að leggja inn á reikning styrktarsjóðsins 0515-14-410407, knt. 470515-1710. 

Katrín er sögð sami grallarinn og áður.
Katrín er sögð sami grallarinn og áður. Ljósmynd/bb.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert