„Ótrúlega þroskandi og skemmtilegt“

Guðrún Valdís fyrir miðju ásamt nokkrum liðsfélögum sínum við Princeton-ljónin.
Guðrún Valdís fyrir miðju ásamt nokkrum liðsfélögum sínum við Princeton-ljónin. Ljósmynd/Guðrún Valdís Jónsdóttir

„Hingað til hefur þetta verið ótrúlega þroskandi og skemmtilegt, en á sama tíma langerfiðasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur,“ segir Guðrún Valdís Jónsdóttir í samtali við mbl.is en hún hefur frá því á síðasta ári stundað nám við hinn virta Princeton-háskóla í Bandaríkjunum. Samhliða náminu hefur hún spilað knattspyrnu með liði skólans og varð liðið nýverið Ivy League-meistari. Guðrún er uppalin á Akranesi og lék þar knattspyrnu með ÍA.

Mbl.is ræddi við Guðrúnu Valdísi vorið 2014 þegar umsókn hennar í tvo virta bandaríska háskóla hafði verið samþykkt. Auk Princeton stóð henni einnig til boða nám við Harvard-háskóla. Guðrún stefnir á að ljúka BA-gráðu í tölvunarfræði við Princeton vorið 2018 en eftir lokapróf haustannarinnar, sem fram fara í janúar, hefur hún lokið þremur önnum af átta. Aðspurð lætur Guðrún vel að lífinu í Bandaríkjunum og náminu í Princeton þó það hafi verið erfiðara en það sem hún hafi áður kynnst. Þannig hafi akademísk enska til að mynda verið ný fyrir henni og kröfurnar væru meiri en hún hafi áður þekkt.

Krefjandi en allt gengið vonum framar

„Ég vissi fyrirfram að ég væri að koma mér út í eitthvað nýtt og krefjandi en ég held að ég hafi ekki alveg áttað mig á hversu virkilega krefjandi námið væri. Allt hefur samt gengið vonum framar og eftir að hafa komist í gegnum fyrsta árið áfallalaust er annað árið mun auðveldara og þægilegra. Umhverfið hér er líka annað en ég var vön heima,“ segir Guðrún, enda er Princeton 300 ára gamall skóli og byggingarnar gamlar og virðulegar.

„Að labba um háskólasvæðið í fyrsta sinn er svolítið eins og að labba um í ævintýri, eins klisjulega og það hljómar. Ég gæti verið hlutdræg en mér finnst oft erfitt að útskýra hversu fallegt mér finnst á háskólasvæðinu. Hér búa langflestir nemendur á heimavistinni og ég bý með þremur öðrum stelpum. Það hjálpar mjög því þó það sé alltaf mjög mikið að gera og heimavinnan taki fleiri klukkutíma á dag, þá eru allir vinir þínir í sama pakka, sem gerir þetta mun bærilegra,“ segir hún einnig.

Fólk frá ólíkum menningarheimum

Princeton er „liberal arts“ háskóli sem þýðir að allir nemendurnir verða að taka ákveðna áfanga, til að mynda sögu, ritgerðasmíð, siðfræði, raungreinar og verklega áfanga, til þess að útskrifast ásamt skylduáföngum fyrir aðalfagið segir Guðrún spurð um námsfyrirkomulagið. „Þannig kynnist maður mörgum ólíkum námsleiðum, en við fáum fyrstu tvö árin til að prófa okkur áfram og finna það sem hentar best. Það var einmitt það sem ég gerði og ég hef núna ákveðið að velja tölvunarfræði sem aðalfag.

„Ég hef hitt og kynnst ótrúlegu fólki hérna, bæði samnemendum, prófessorum, og öðru starfsfólki og maður lærir heilmikið á að umgangast svona margt fólk frá mörgum ólíkum menningarheimum. Sérstaklega þegar maður kemur frá litla Íslandi, þá er mjög áhugavert að heyra mismunandi skoðanir og reyna að skilja og setja sig í spor fólks með önnur viðhorf en maður sjálfur,“ segir hún ennfremur.

Varð Ivy League-meistari í fótbolta

Guðrún hefur ekki aðeins verið að gera það gott í náminu heldur er hún einnig markmaður hjá knattspyrnuliði Princeton-háskóla. Liðið varð Ivy League-meistari á leiktímabilinu sem lauk nýverið en það fékk nýtt þjálfarateymi síðasta vor. Átta háskólar taka þátt í Ivy League-delidinni og fóru Guðrún og félagar hennar ósigraðar í gegnum deildina. Í kjölfarið komust þær í NCAA-mótið sem er keppni um bandaríska háskólabikarinn.

„Við duttum út í 2. umferð í 32 liða úrslitunum. Það er þó virkilega góður árangur hjá Ivy League-liði, þar sem námskröfurnar í þessum skólum eru hærri en í mörgum öðrum skólum Bandaríkjanna. Þess vegna er ekki alltaf hægt að fá bestu leikmennina í skólann, standist þeir ekki námskröfurnar sem gerðar eru,“ segir hún.

Ótrúlega heppin með liðsfélaga

Áfram var rætt um fótboltann og segir Guðrún að háskólafótbolti sé aðeins frábrugðinn þeim fótbolta sem fólk er vant á Íslandi. „Mun fleiri skiptingar eru leyfðar, leikmenn geta farið út af og komið aftur inn á, það er niðurtalning á tíma o.fl. Þá er fótboltatímabilið á haustönn. Undirbúningstímabilið er á vorönn og svo mætum við mánuði fyrr í skólann en aðrir nemendur til að hefja undirbúning fyrir tímabilið.“

„Ég var ótrúlega heppin með liðsfélaga sem eru allar frá Bandaríkjunum, fyrir utan mig og þrjá Kanadamenn. Margar þessara stelpna eru einir bestu vinir mínir hér úti og þær eru líklega þær 23 duglegustu manneskjur sem ég hef unnið með á ævinni. Að spila keppnisíþrótt í krefjandi námi krefst mjög mikils skipulags og aga, eins og flestir „íþrótta-nemendur” vita. Mann vantar yfirleitt 5-6 klukkustundir í hvern sólarhring, en samt gengur allt einhvern veginn upp.“

Fréttir mbl.is:

Princeton varð fyrir valinu

Komst inn í Princeton og Harvard

Guðrún Valdís og hinir tveir markverðir liðsins með Ivy League-bikarinn.
Guðrún Valdís og hinir tveir markverðir liðsins með Ivy League-bikarinn. Ljósmynd/Guðrún Valdís Jónsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert