Vatn flæddi inn í íbúðir aldraðra

Vatn hefur flætt yfir vegi í Neskaupstað. Gröfur reyna að …
Vatn hefur flætt yfir vegi í Neskaupstað. Gröfur reyna að moka upp úr lækjum. Mynd/Sigurður Aðalsteinsson

Vatn flæddi inn í sextán íbúðir aldraðra í Neskaupstað í morgun. Flestir íbúarnir eru komnir til ættingja sinna en einn fær gistingu á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Vonast er til að fólkið komist aftur til síns heima fyrir helgi. 

Um þrjátíu manns voru að störfum í íbúðunum í morgun þegar mest var. Slökkvilið bæjarins var ekki kallað á vettvang en iðnaðarmenn, sjálfboðaliðar og aðstandendur komu til aðstoðar.

Búið er að rífa upp parketið í sjö íbúðum.

Um er að ræða þriggja hæða fjölbýlishús og flæddi vatn inn á jarðhæðina og hæðina fyrir neðan.

Mikið rask fyrir íbúana

„Verst í þessu er raskið fyrir fólkið,“ segir Marinó Stefánsson, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar. „Það er óveður hérna. Það renna lækir yfir götur á þremur stöðum og yfir lóðir með tilheyrandi tjóni. Niðurföllin hafa ekki undan.“

Hann segir vatn hafa áður flætt inn í íbúðirnar fyrir aldraða en ekki eins mikið og núna.

Það er mikið óveður í Neskaupstað.
Það er mikið óveður í Neskaupstað. Mynd/Sigurður Aðalsteinsson

Býst við vatnsskorti í bænum 

Að sögn Þorsteins Guðjónssonar bæjarverkfræðings eru gröfur úti um allt í Neskaupstað við að moka upp úr stífluðum lækjum. Bæjarstarfsmenn eru einnig önnum kafnir.

Hann telur að aðalvatnsveitulögnin sé líkast til biluð og reiknar með vatnsskorti í bænum eftir tvo til þrjá klukkutíma.

Enn á eftir að finna út hvar lögnin bilaði. 

Frétt mbl.is: Tjónið nemur tugum milljóna

Frétt mbl.is: Þak fauk af húsi á Egilsstöðum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert