„Getum sleppt því að sitja í þessum sal“

Frá fundi borgarstjórnar. Mynd úr safni.
Frá fundi borgarstjórnar. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

„Aðgengi er ekki dýrt, en „ekki aðgengi“ er dýrt,“ sagði Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingar á borgarstjórnarfundi í dag. Til umræðu var tillaga meirihlutans um að stofnaður verði stýrihópur sem marka skuli heildstæða stefnu um aðgengismál í Reykjavík.

Kristín Soffía sagði borgaryfirvöld ekki hafa neina stefnu þegar kæmi að þessum málaflokki. Því væri lagt til að stofna stýrihóp sem marka skyldi slíka stefnu.

Segir í tillögunni að hópinn skuli skipa fulltrúar úr mannréttindaráði, umhverfis- og skipulagsráði og ferlinefnd fatlaðs fólks. Með þeim vinni starfsfólk frá mannréttindaskrifstofu, umhverfis- og skipulagssviði og velferðarsviði. Starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir 1. desember 2016.

„Það er endalaust verið að útbúa skýrslur, móta stefnur og búa til hópa. Það er ekki nóg að móta stefnur heldur þarf að framfylgja þeim. Það hefur gengið mjög illa hjá borginni,“ sagði Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar.

„Það að fatlaðir komist ekki ferða sinna hér í miðbænum eða komist ekki í sundlaugar er algjörlega ótækt.“

Til umræðu var tillaga meirihlutans um að stofnaður verði stýrihópur …
Til umræðu var tillaga meirihlutans um að stofnaður verði stýrihópur sem marka skuli heildstæða stefnu um aðgengismál í Reykjavík.

„Hvar erum við eiginlega stödd?“

„Hvar erum við eiginlega stödd?“ spurði Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.

„Ég get alveg ímyndað mér að það sé erfitt að fylgja öllum tilskipunum og stefnumótunum sem gerðar eru hérna. En er alltaf nauðsynlegt að setja á laggirnar stýrihóp til að fylgja eftir öllum áherslum? Erum við bara blaðrandi 15 manneskjur sem höfum ekkert „say“?“ sagði Áslaug.

„Ef okkar vinna skilar aldrei neinu þá getum við allt eins sleppt því að sitja í þessum sal.“

Flott að fá kanónu úr minnihlutanum

Kristín Soffía sagðist loks vera ánægð með áhuga minnihlutans, sem virtist þó koma henni á óvart. „Minnihlutinn á að eiga fulltrúa í ferlinefnd fatlaðs fólks en þegar kom að því að skipa hann þá kom á daginn að enginn úr minnihlutanum hafði áhuga á því,“ sagði Kristín Soffía og bætti við að Ragnheiður Gunnarsdóttir ætti þar sæti fyrir hönd minnihlutans, en hún ætti ekki sæti á lista flokksins.

„Okkur í ferlinefndinni þætti mjög gaman að fá góðan fulltrúa frá minnihlutanum. Þetta er tyrfið starf og það væri flott að fá einhverja kanónu úr minnihlutanum til að hjálpa til við vinnuna því hún er sannarlega erfið.“

Kristín Soffía sagði að borgarfulltrúar þyrftu alltaf að hafa aðgengishattinn …
Kristín Soffía sagði að borgarfulltrúar þyrftu alltaf að hafa aðgengishattinn á. mbl.is/Kristinn

Vildu fagmanneskju frekar en borgarfulltrúa

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokks sagðist hafna þessum málaflutningi.

„Ég vil minna á það að í september 2014 þá þurftum við að minna á að minnihlutinn ætti að eiga fulltrúa í ferlinefnd fatlaðra. Fram að því var það alls ekki ætlun meirihlutans að gefa okkur fulltrúa. Við óskuðum eftir því að við fengjum sjöunda fulltrúann í nefndinni og það var að vísu samþykkt,“ sagði Halldór. „Svo stendur Kristín Soffía hér upp og segir okkur ekki hafa haft neinn áhuga á sæti í nefndinni?

Að lokum sagði Halldór að lögð hefði verið áhersla á að finna fagmanneskju í stað þess að endilega velja fulltrúa úr röðum borgarfulltrúa, og benti á að Ragnheiður væri hjúkrunarfræðingur með mikla reynslu af málaflokknum.

Var ekki með aðgengishattinn á

„Ég er ánægð með hitann sem myndast hefur hérna í umræðunum,“ sagði Kristín Soffía.

„Ég vildi að við værum alltaf svona spennt þegar kemur að aðgengismálum. Við þurfum alltaf að hafa aðgengishattinn á okkur. Ég sat í umhverfis- og skipulagsnefnd þegar Hverfisgatan var endurbætt, þá var ég ekki með minn hatt á,“ sagði Kristín Soffía og benti á fleiri tilvik þar sem borgarfulltrúar hefðu ekki haft „aðgengishattinn“ á höfði sínu.

Tilllagan var að lokum samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Sjá tillöguna í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert