Akureyringar jákvæðir í garð útlendinga

Ekki reyndist marktækur munur á viðhorfum Akureyringa til flóttamanna og …
Ekki reyndist marktækur munur á viðhorfum Akureyringa til flóttamanna og annarra af erlendum uppruna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti Akureyringa telur gott fyrir Akureyri að útlendingar setjist þar að. Þetta kemur fram í nýrri könnun á viðhorfum Akureyringa til fólks af erlendum uppruna. Um 60% aðspurðra sögðust mjög sammála eða frekar sammála fullyrðingunni að það væri gott fyrir Akureyri að útlendingar setjist hér að, 30% hvorki né en 11% reyndust ósammála. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri.

Ekki reyndist marktækur munur á viðhorfum Akureyringa til flóttamanna og annarra af erlendum uppruna. Um 61% voru frekar eða mjög sammála því að það sé gott fyrir samfélagið á Akureyri að fólk af erlendum uppruna setjist hér að en 59% að það sé gott að flóttamenn setjist hér að. Í báðum tilvikum voru um 11% ósammála þeim fullyrðingum.

Rannsókninni var stýrt af Markus Meckl prófessor við Háskólann á Akureyri og styrkt af Byggðarrannsóknarsjóði Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Niðurstöðurnar byggja á á tilviljunarúrtaki eitt þúsund Akureyringa en rannsóknin náði einnig til íbúa á Dalvík og Húsavík.

Háskólamenntaðir jákvæðastir en þeir með minnstu menntunina neikvæðastir

Viðhorfin voru einnig skoðuð með tilliti til menntunar. Viðhorf háskólamenntaðra gagnvart útlendingum í bænum mældist jákvæðast en viðhorf grunnskólamenntaðra minnst jákvætt. Þannig taldi um helmingur þeirra sem var með grunnskólapróf jákvætt að fólk af erlendum uppruna flytti til Akureyrar en um þrír af hverjum fjórum þeirra sem voru með háskólapróf.

Að sama skapi eru þeir sem búið hafa erlendis jákvæðari gagnvart aðflutningi fólks af erlendum uppruna en aðrir og því jákvæðari eftir því sem þeir hafa búið lengur í öðru landi.

Viðhorf háskólamenntaðra gagnvart útlendingum í bænum mældist jákvæðast en viðhorf …
Viðhorf háskólamenntaðra gagnvart útlendingum í bænum mældist jákvæðast en viðhorf grunnskólamenntaðra minnst jákvætt. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þannig voru um 54% þeirra sem aldrei höfðu búið erlendis frekar eða mjög sammála því að það sé gott fyrir Akureyri en 81% þeirra sem búið höfðu erlendis lengur en 5 ár.

Enginn marktækur munur mældist eftir kyni, aldri, tekjum eða milli innfæddra eða aðfluttra.

Hins vegar tengdust viðhorf til aðflutning fólks frá öðrum löndum viðhorfum svarenda til þeirra breytinga sem orðið hafa á samfélaginu á Akureyri á síðustu 20 árum.

Um og undir helmingur þeirra sem telja slíkar breytingar hafa orðið til hins verra eru jákvæðir gagnvart fólki af erlendum uppruna. Meðal þeirra sem telja breytingar á samfélaginu hafa verið mjög til hins betra töldu hins vegar þrír af hverjum fjórum jákvætt að til Akureyrar flyttist fólk af erlendum uppruna.

Markus Meckl segir í samtali við Akureyri vikublað, að niðurstöðurnar ekki hafa komið á óvart. „Ástæðan fyrir þessari rannsókn var niðurstaða rannsóknar sem við gerðum fyrir þremur árum. Þar kom í ljós að 82% útlendinga búsettir á Akureyri eru mjög ánægð með að búa hér. Við vildum skoða hvort þessi ánægja útlendinganna væri til komin vegna þess að þeim sé vel tekið af Akureyringum. Ég er alls ekki hissa á útkomunni. Ég hef búið hér í tíu ár og þetta var mín tilfinning,“ segir Markus sem stýrði rannsókninni.

Niðurstöðurnar verða kynntar á ráðstefnunni Enginn er eyland: Ísland og alþjóðasamfélagið sem haldin verður 19. mars í Háskólanum á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert