Linda P íhugar framboð

Linda Pétursdóttir, fegurðardrottning og athafnakona, er alvarlega að íhuga forsetaframboð.
Linda Pétursdóttir, fegurðardrottning og athafnakona, er alvarlega að íhuga forsetaframboð. Ljósmynd/Af Facebook síðu Lindu

Athafnakonan Linda Pétursdóttir er alvarlega að hugleiða forsetaframboð. Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is.

Linda er stödd í Bandaríkjunum um þessar mundir en stefnir á að tilkynna ákvörðun sína fljótlega. „Í rólegheitunum hef ég verið að vega og meta ýmsa hluti tengda þessu en hugleiði vissulega framboð alvarlega. Endanleg ákvörðun mun liggja fyrir fljótlega,“ segir Linda.

Á heimasíðu Lindu má finna færslu þar sem Linda fer yfir hugleiðingar sínar varðandi embættið. Hún segist jafnframt hafa fundið fyrir miklum stuðningi og hvatningu. „Mig langar að koma á framfæri bestu þökkum til allra þeirra sem hafa hvatt mig og sýnt mér það mikla traust. Ég tek hvatningunni af auðmýkt og virðingu.“

Fleiri íhuga framboð 

Nú hafa 13 manns tilkynnt um framboð sitt til forseta Íslands, en framboðsfrestur rennur út fimm vikum fyrir kosningar, eða þann 21. maí. Það á því eflaust eftir að bætast í hóp frambjóðenda.

Davíð Þór Jónsson, hérðasprestur og fyrrverandi grínisti, hefur lýst því yfir að hann færist nær framboði, en hann mun tilkynna ákvörðun sína á næstu dögum.

Guðrún Nordal, pró­fess­or og for­stöðumaður Árna­stofn­un­ar, hefur einnig verið orðuð við framboð. „Ég er að velta málum fyrir mér, það er búið að vera mikið að gerast á þessum vettvangi síðustu daga þannig það er ágætt að gefa sér örlítinn tíma til að stíga skrefið,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is. Hún segist ekki ætla að gefa sér mjög langan tíma í viðbót til að hugsa sig um og muni tilkynna ákvörðun sína á næstunni.

Þá greindi Kjarninn frá því í gær að Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, og Andri Snær Magnason, rithöfundur, muni tilkynna um ákvörðun sína á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert