Kastaðist úr aftursæti bílsins

Meðfylgjandi ljósmynd er af bílaleigubílnum sem fór útaf á Laxárdalsheiði.
Meðfylgjandi ljósmynd er af bílaleigubílnum sem fór útaf á Laxárdalsheiði. Ljósmynd/Lögreglan á Vesturlandi

Tíu umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á Vesturalndi í síðustu viku, þar af tvö banaslys. Annað varð á Holtavörðuheiði og hitt í Stykkishólmi. 

Síðastliðinn fimmtudag fór bifreið út af veginum á Laxárdalsheiði í Dalabyggð, hafnaði ofan í vegskurði og stövaðist á freðnum skurðbakka. Í bílnum voru þrír erlendir ferðamenn. Svo virðist sem ökumaður bílsins hafi misst stjórn á honum í lausamöl í aflíðandi beygju.

Um malarveg er að ræða og er hann í ágætu standi miðað við slíka vegi á þessum árstíma. Ökumaður og farþegi í framsæti voru í bílbeltum og sluppu án meiðsla en farþegi í aftursæti var ekki í belti og kastaðist hann fram í bifreiðina við höggið. Brákaðist hann á hrygg og hálsi.

Ekið var á níu ára gamlan dreng á reiðhjóli á bílastæðinu við íþróttahúsið við Jaðarsbakka á Akranesi síðastliðinn fimmtudag. Drengurinn á reiðhjólinu var með hjálm og slapp hann við alvarleg meiðsli en hlaut mar og rispur á fótleggjum.

Lögreglan hafði afskipti af fjölda ökumanna í umferðareftirliti sínu í síðastliðinni viku. Skráningarnúmer voru klippt af nokkrum bílum þar sem ekki hafði verið farið með þá í bifreiðaskoðun. Þá tók lögreglan 42 ökumenn fyrir of hraðan akstur og hraðamyndavélarnar mynduðu um 400 ökumenn sem óku of hratt. Um 70 þeirra voru myndaðir við Fiskilæk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert