Ekki hugsað um formannsframboð

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segist ekki hafa velt fyrir sér hvort hann muni sækjast eftir formennsku í Framsóknarflokknum, sækist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, ekki eftir endurkjöri.

Hann segist ekki hafa þurft að hugsa sig um þegar til umræðu kom að hann tæki við af Sigmundi sem forsætisráðherra. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun en þar ræddi Sigurjón M. Egilsson við Sigurð Inga.

Sigurjón spurði Sigurð Inga meðal annars út í viðtal Heimis Más Péturssonar, fréttamanns 365, við hann á dögunum. Þar spurði Heimir Már Sigurð hvort eðlilegt væri að forsætisráðherrann og kona hans eigi stórar upphæðir á Tortóla?„Það er auðvitað augljóslega talsvert  flókið að eiga peninga á Íslandi. Það er ekkert að því að fólk sé efnað á Íslandi,“ svaraði  Sigurður  en hann var á leið af ríkisstjórnarfundi.

Vildi Sigurjón vita hvort Sigurður Ingi hefði með þessu svari verið meðvirkur með Sigmundi Davíð. „Þetta var ekki viðtal. Við vorum að labba þarna og síðan var það auðvitað notað,“ svaraði Sigurður Ingi. Benti hann á að hann hefði verið á leið út af ríkisstjórnar og skyndilega verið kominn með hljóðnema framan í sig.

„Það sem ég var að meina, í gegnum tíðina á Íslandi hefur þú oft verið á milli tannanna á fólki ef þú átt peninga. Það er oft erfitt að vera efnaður maður, flestir höndla það vel en aðrir hafa ekki gert það,“ sagði Sigurður Ingi.

Forsætisráðherra lagði áherslu á að ljúka þyrfti þeim verkefnum sem ríkisstjórnin lagði upp með, til að mynda afnámi gjaldeyrishafta. „Allar tafir munu valda því að aðilar sem við erum að kljást munu líta á það sem veikleikamerki,“ sagði hann meðal annars.

Sigurjón spurði forsætisráðherra hvort hann teldi íslensku krónuna ótvírætt besta gjaldmiðilinn. Svaraði Sigurður Ingi að krónan væri ekki aðeins besti gjaldmiðillinn fyrir þjóðina heldur sá eini sem hægt sé að nýta þessa stundina. Sagðist hann ekki útiloka að einn daginn yrði skipt um gjaldmiðil en á meðan krónan sé í notkun eigi að tryggja að hún virki sem best.

Þá sagðist Sigurður Ingi telja að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni samþykkja búvörusamninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert