Þungt „hópandvarp“ í Staðarskála

Svona er umhorfs fyrir utan Staðarskála í Hrútafirði í kvöld.
Svona er umhorfs fyrir utan Staðarskála í Hrútafirði í kvöld. mbl.is

Þungt „hópandvarp“ heyrðist í Staðarskála í kvöld þegar tilkynning barst frá Vegagerðinni um að Holtavörðuheiði yrði ekki opnuð næstu tvo tímana. Laxárdalsheiði og Brattabrekka eru líka ófærar.

Einn þeirra sem eru veðurtepptir í Staðarskála segir í samtali við mbl.is að viðbrögð viðstaddra við þessum tíðindum hafi verið „mjög þungt hópandvarp.“ 

Hann segir að býsna troðið sé orðið í skálanum.

Björgunarsveitarmenn eru nú að aðstoða fólk sem situr fast í bílum sínum á Holtavörðuheiði. Um tíu bílar voru þar fastir í kvöld. 

Nú er stórhríð allvíða á norðurhelmingi landsins. Enn á veður eftir að versna austanlands og í kvöld má búast við hættulegum vindhviðum og jafnvel sandfoki undir Vatnajökli.

Margar leiðir lokaðar og ófærar

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar kl. 19 er lokað á Holtvörðuheiði, Bröttubrekku, Laxárdalsheiði, Þverárfjalli, Hófaskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði. Eins er lokað á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum en reiknað er með að þessar leiðir opni í kvöld. Veginum frá Skeiðarársandi og austur að Jökulsárlóni verður lokað kl 20.00 í kvöld.

Vetrarfærð er nú á Vestfjörðum og ófært á Klettshálsi og lokað á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Ófært er einnig á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði. 

Það er víða snjóþekja og hvasst á Norðurlandi vestra. Lokað er yfir Holtavörðuheiði og Þverárfjall. Á Norðausturlandi er versnandi veður og þungfært á Hólaheiði og Sandvíkurheiði og ófært á Fljótsheiði og Mývatnsheiði. Búið að loka veginum á Hófaskarði og yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert