Kærir framkvæmd forsetakosninga

Magnús Ingberg Jónsson hyggst kæra framkvæmd forsetakosninganna.
Magnús Ingberg Jónsson hyggst kæra framkvæmd forsetakosninganna. Ljósmynd/Magnús Ingberg

Magnús Ingberg Jónsson sem lýst hafði yfir forsetaframboði ætlar að ráðfæra sig við lögfræðing eftir helgi og kæra framkvæmd kosninganna. Hann náði ekki að skila inn tilskildum fjölda undirskrifta og var ekki veittur frestur þegar hann fór þess á leit við innanríkisráðuneytið í gær.

Í samtali við mbl.is segist Magnús hafa fengið misvísandi upplýsingar sem urðu til þess að valda miklum töfum á undirskriftasöfnun hans. „Þetta er mjög slæmt mál að mörgu leyti. Menn gera sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif þetta getur haft á kosninguna,“ segir Magnús og bætir við: „Ef ég hefði fengið frestinn þá hefði ég getað náð að safna. Það gekk mjög vel að safna á meðan það var verið að því.“

Frétt mbl.is: Forsetaframbjóðendur kynntir í dag

Líkt og fram kom á mbl.is fyrr í dag verða forsetaframbjóðendur sem náðu að skila inn undirskriftum og öðrum nauðsynlegum gögnum kynntir eftir fund í innanríkisráðuneytinu sem hefst kl. 14. RÚV greindi frá því í morgun að níu manns hefðu náð að skila inn gögnum. Síðan bættist Magnús í hópinn, en líkt og áður sagði tókst honum ekki að safna nægum fjölda undirskrifta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert