„Breytir engu varðandi greiðsluvandann“

Thorsil hyggst reisa kísilver sitt í Helguvík. Greiðslu gatnagerðargjalda hefur …
Thorsil hyggst reisa kísilver sitt í Helguvík. Greiðslu gatnagerðargjalda hefur sex sinnum verið frestað.

Á föstudaginn samþykkti Reykjaneshöfn viðauka við samkomulag á milli hafnarinnar og Thorsil, sem ætlar að byggja kísilver í Helguvík, um að fresta fyrstu greiðslu gatnagerðargjalda frá 15. maí til 31. júlí. Þetta er í sjötta skiptið sem frestur er veittur, en upphaflega átti að greiða gjaldið fyrir lok árs 2014. Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri segist gera ráð fyrir að júlídagsetningin verði lokapunkturinn í þessu ferli.

Frétt mbl.is: Greiðslufresturinn framlengdur

Fyrsta greiðslan vegna gatnagerðargjaldanna hljóðar upp á 140 milljónir króna, en eins og fyrr segir hefur greiðslu hennar verið frestað nú í sex skipti. Halldór segir að þegar um sé að ræða svona stórar framkvæmdir þurfi oft lengri tíma til að klára ákveðin verkefni. Þannig bendir hann á að Thorsil hafi nýlega klárað samninga vegna raforkukaupa fyrir kísilverið og þá sé verið að ljúka málum um fjármögnun. „Ef þetta frestast þá frestast það, en við gerum ráð fyrir að þetta sé lokapunkturinn,“ segir Halldór.

Reykjaneshöfn hefur verið í greiðsluerfiðleikum síðustu misseri og í október í fyrra kom fram að greiðslufall hafnarinnar væri yfirvofandi. Er Reykjanesbær í ábyrgð fyrir höfnina, en bærinn hefur einnig verið í fjárhagsvandræðum og nú síðast var tilkynnt að ekki hefðu náðst samningar við kröfuhafa bæjarins og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefði verið gert viðvart um stöðuna.

Aðspurður hvort ítrekaðar frestanir á greiðslu frá Thorsil skipti höfnina miklu máli varðandi greiðsluerfiðleikana segir Halldór að svo sé ekki. Segir hann að í samningi hafnarinnar og Thorsil skuldbindi höfnin sig til að fara í framkvæmdir vegna lóðarinnar þegar greiðslan hefur borist og að stærstur hluti hennar fari í þær framkvæmdir. „Þetta breytir engu varðandi greiðsluvandann,“ segir hann.

Halldór bendir á að höfnin fari ekki í þessar framkvæmdir fyrr en greiðslan komi og því sé ekki um að ræða að höfnin hafi þegar lagt út fyrir því sem samningurinn kveður á um.

Þetta er ekki eini samningurinn sem er útistandandi hjá höfninni, því einnig er uppi ágreiningsmál um lokagreiðslu lóðagjalda frá hinu kísilverinu sem er á svæðinu, United Silicon. Kísilverið mun hefja framleiðslu núna í haust en samkvæmt Halldóri er ágreiningurinn um greiðslu upp á annað hundrað milljónir.

Teikning af fyrirhugaðri kísilmálmverksmiðju Thorsil.
Teikning af fyrirhugaðri kísilmálmverksmiðju Thorsil.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert