Ekkert áætlunarflug í nótt vegna yfirvinnubanns

Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) og Samtök atvinnulífsins (SA) fyrir hönd …
Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) og Samtök atvinnulífsins (SA) fyrir hönd Isavia standa nú í kjaraviðræðum og hefur þeim verið vísað til ríkissáttasemjara. mbl.is/Ernir

Vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra verður þjónusta á Keflavíkurflugvelli takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá 02:00 í nótt til 07:00 í fyrramálið. Ástæðan er að tveir flugumferðarstjórar sem áttu að vera á vaktinni í nótt eru veikir og vegna yfirvinnubanns fást ekki flugumferðarstjórar til afleysinga.

Á meðan á takmörkuninni stendur eru 20 vélar áætlaðar til komu frá Norður-Ameríku og sjö til brottfarar til Evrópu, að því er segir í tilkynningu frá Isavia.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) og Samtök atvinnulífsins (SA) fyrir hönd Isavia standa nú í kjaraviðræðum og hefur þeim verið vísað til ríkissáttasemjara. Viðræður hafa staðið yfir frá því í nóvember en síðasti fundur var haldinn 20. maí síðastliðinn. Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til næsta fundar í viðræðunum, segir enn fremur í tilkynningunni.

Yfirvinnubann FÍF hefur staðið yfir frá 6. apríl.  

Farþegar sem eiga bókað flug á þessum tíma eru hvattir til að fylgjast með flugáætlunum á www.kefairport.is eða vef síns flugfélags.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert