Skartgripir, dýr föt og riffilsjónauki

Mennirnir eru báðir í gæsluvarðhaldi.
Mennirnir eru báðir í gæsluvarðhaldi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Báðir erlendu ferðamennirnir sem handteknir voru fyrir umfangsmikinn þjófnað hér á landi hafa verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þýfið er metið á margar milljónir, en meðal þess eru snyrtivörur, skartgripir, dýr fatnaður, raftæki og veiðivörur. Ekki er vitað yfir hversu langt tímabil þjófnaðurinn nær, en hluti þýfisins hafði verið sendur með pósti úr landi. Lögreglan náði að stöðva tvær sendingar sem voru á leið til Danmerkur og Þýskalands.

Lögreglan gerði húsleit í fyrradag á dvalarstað mannanna og fann þar talsvert af þýfinu. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er það metið á margar milljónir og enn óljóst hversu umfangsmikið málið er eða yfir hversu langan tíma það nær. Þannig er ekki hægt að útiloka að talsverð verðmæti hafi verið send úr landi.

Bjarni Ólafur Magnússon lögreglufulltrúi segir að unnið sé að því að rekja ferðir mannanna og munanna og að málið sé á frumstigi rannsóknar. Þannig séu rekstraraðilar verslana enn að leggja inn kærur vegna málsins og lögregla eigi eftir að skrá mikið af hlutunum.

Stærstur hluti hinna meintu brota átti sér stað miðsvæðis í Reykjavík en einnig eru dæmi frá Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Kópavogi. Segir Benedikt Lund lögreglufulltrúi að upphaflega hafi menn haldið að þarna væru skartgripaþjófar á ferð en svo hafi komið í ljós að talsvert var um dýran fatnað, raftæki, snyrtivörur og veiðidót. Þannig sé meðal munanna mjög dýr sjónauki á riffli.

Spurður um fjölda verslana sem þjófarnir hafi rænt úr segir Benedikt að um fjölda verslana sé að ræða og líklegast væri hægt að fara í flestar dýrari búðir á Laugaveginum og skila einhverju.

Frétt mbl.is: Annar maður í gæsluvarðhald

Mennirnir létu greipar sópa í fjölmörgum verslunum á Laugavegi.
Mennirnir létu greipar sópa í fjölmörgum verslunum á Laugavegi. Mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert