Rétt sluppu við táragas í Marseille

Frá leiknum í gær.
Frá leiknum í gær. Aðsend mynd/Tómas Nielsen

Tómas Nielsen var ásamt bróður sínum, föður og fjölskylduvini staddur á leik Englands og Rússlands í Marseille í Frakklandi í gær þar sem mikil átök áttu sér stað milli stuðningsmanna liðanna bæði innan sem utan vallar. Þegar þeir voru staddir í miðborg borgarinnar fyrir leikinn rétt sluppu þeir við stóran hóp af rússneskum bullum sem franska lögreglan var að svæla í burtu með táragasi.

Fjölskylda Tómasar og vinafólk er núna statt í borginni Cannes í Frakklandi, en hann segir að fjölskyldan ætli á leik Íslands og Ungverjalands um næstu helgi, en þeir feðgar og vinur föður þeirra hafi ákveðið að kíkja líka á leikinn í gær.

Hann segir þá ekki hafa ætlað að mæta of snemma fyrir leikinn til borgarinnar, en hafi svo þurft að leggja bílnum hinu megin við miðbæinn. Þeir hafi því labbað þar í gegn á leið sinni á völlinn. Tómas segir að strax hafi þeir séð glerbrot út um allt. Þá hafi einnig verið mikið um tóma bjórkassa og fulla Breta að syngja út um allt.

Þeir fóru að leita sér að veitingastað þegar þeir komu í miðbæinn en þá mætir þeim 30 manna hópur af Bretum sem er umkringdur af lögreglunni sem er að fylgja þeim út af svæðinu. „Þá föttuðum við að þetta væri aðeins meira en eitthvað venjulegt,“ segir Tómas. Þeir hafi því haldið aðeins áfram að vellinum áður en þeir fundu veitingastað.

Rússneskar bullur á flótta undan táragasi og lögreglu

Bróðir Tómasar var þó ekki sáttur með valið og þeir héldu því á McDonald's-skyndibitastað fyrir hann eftir að hafa borðað. Þegar þeir ganga þar inn sjá þeir hvar hópur rússneskra stuðningsmanna kemur labbandi upp götuna. Allt í einu byrja þeir að hlaupa og stefna í átt að skyndibitastaðnum. Á sama tíma segir Tómas að þeir hafi heyrt sprengingar og þeir hafi svo gert sér grein fyrir því að þar hafi franska lögreglan verið að svæla bullurnar í burtu með táragasi. Hópurinn hljóp fram hjá McDonald's en Tómas segir að yfirmaður staðarins hafi lokað staðnum á örfáum sekúndum eftir að hann heyrði í sprengingunum.

Feðgarnir Tómas Nielsen, Hjörtur Nielsen og Rúnar Nielsen.
Feðgarnir Tómas Nielsen, Hjörtur Nielsen og Rúnar Nielsen. Aðsend mynd/Tómas Nielsen

Ein sprengjan lenti beint fyrir framan skyndibitastaðinn að sögn Tómasar og þegar þeir fóru út um fimm mínútum seinna var loftið allt fullt af leifum af táragasinu. Segir hann að þeir hafi allir fundið bragðið af því sem hafi verið ógeðslegt.

Til að komast að vellinum þurftu þeir svo að ganga á eftir rússneska hópnum, en Tómas segir að lögreglan hafi ítrekað skotið á þá táragasbrúsum og svo þegar þeir komu að leikvanginum hafi bullunum verið smalað með táragasinu í eitthvert horn og þaðan teknar afsíðis.

Mjög fáar konur og engar fjölskyldur

Þrátt fyrir að þeir hafi fyrst og fremst séð rússneskar bullur segir Tómas að það hafi verið ljóst að Englendingarnir hafi líka verið að sækjast í slagsmál. Þá hafi það komið sér rosalega á óvart að þeir hafi eiginlega ekki séð neinar konur í kringum leikvanginn eða á leiknum sjálfum. „Við sáum kannski 6–7 konur á vellinum allan tímann,“ segir hann. „En við sáum engar fjölskyldur.“ Í staðinn hafi bara verið karlahópar, fullir Bretar og slagsmálahópar.

Hrikalega illa skipulögð löggæsla

Tómas segir mesta sjokkið þó vera að sjá hversu hrikalega illa löggæslan væri skipulögð hjá Frökkunum. „Þeir náðu ekkert að stjórna crowd-inu,“ segir hann og bætir við að þegar fólk fór inn á völlinn hafi það átt að fara í einhverjar raðir þar sem einn og einn maður stoppaði fólk áður en það fór inn. Það gekk að sögn Tómasar vægast sagt illa og ruddist fólk í gegnum þetta svæði.

Borgin Marseille var full af lögreglumönnum í gær.
Borgin Marseille var full af lögreglumönnum í gær. Aðsend mynd/Tómas Nielsen

Þegar leikurinn var að klárast og eftir hann blossuðu einnig upp slagsmál þegar rússneskar bullur réðust að stuðningsmönnum Englendinga. Tómas segir að þeir hafi þó ákveðið að fara af vellinum á 88. mínútu. Þegar þeir komu að hliðinu sínu var það aftur á móti lokað. Rétt í því skoruðu Rússar jöfnunarmark leiksins og var hliðið þá opnað. Tómas segir að þeir hafi ákveðið að hlaupa í gegnum miðbæinn til að komast hjá öllu rugli fyrir utan leikvanginn eftir leikinn. Það hafi tekist.

Næst á dagskrá hjá hópnum er svo leikur Íslands og Ungverjalands næstu helgi. Tómas segir að allir séu mjög spenntir að fara, þrátt fyrir upplifunina í gær. Segist hann gera ráð fyrir því að óeirðaseggirnir verði þá farnir frá borginni og að stuðningsmenn Íslands geti skemmt sér vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert