Kallar á sterka forystu hér á landi

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/Ómar

Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra, segir gríðarleg tækifæri felast í ákvörðun Breta um að ganga úr Evrópusambandinu en að niðurstaðan kalli á sterka pólitíska forystu hér á landi. Hér þurfi sterka stjórnmálamenn og að niðurstaðan geti haft áhrif á stjórnmálin hér heima, þar sem kosið verði bæði til forseta og þings á árinu og að miklu skipti „að hafa staðfastan forseta á Bessastöðum“.

„Þetta eru gríðarleg tímamót og margar spurningar sem vakna,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu Breta sem fram fór í nótt. Hann segist ekki hafa fylgst með talningunni en að hann hafi verið öruggur um það að lýðræðið myndi sigra í Bretlandi. „Nú hefur það gerst sem að vitur stjórnmálamaður, sem nú er látinn, sagði við mig þegar evran var að hefja sinn yfirgang í Evrópu, að nú væri það að gerast í Evrópu að Þjóðverjarnir ætluðu sér að ná þeim árangri sem þeir náðu ekki í stríðin, með peningum. Þannig að snemma fæddust áhyggjur um að evran gengi ekki upp og að Evrópusambandið gæti aldrei orðið eitt ríki eins og stefnt var að.“ Guðni segir fólkið hafa hafnað þeirri stefnu.

Hann segir gríðarleg tækifæri felast í þessari ákvörðun Breta, sem kalli á sterka pólitíska forystu hér á landi. „Ég hygg að við Íslendingar séum nú heppnir að hafa aldrei gengið Evrópusambandinu á hönd, hér hafa verið miklar deilur um það, en okkar staða er nú betri og við þurfum að skoða það með Noregi, Bretlandi og fleiri ríkjum.“ Guðni segist vera klár á því að Bretar muni vilja gera góðan viðskiptasamning við Íslendinga um leið og þeir fá frelsi sitt á ný. „En það mun hefjast ný þróun með einhverjum hætti í Evrópu, fleiri lönd munu vilja út, Frökkum fer að líða illa, Hollendingum, Dönum, og svo framvegis og þessi þróun verður ekki stöðvuð.“

Þurfum að fella umsóknina formlega úr gildi

„Nú þurfum við Íslendingar að stoppa og fagna okkar frelsi og okkar afstöðu í gegnum síðustu ár, og klára núna á Alþingi Íslendinga formlega að ganga frá því að umsóknin sé úr gildi. Fyrst og fremst þurfum við núna sterka stjórnmálamenn sem setjast yfir þetta stóra verkefni með hinum þjóðunum, því að framtíð verður í viðskiptum í Evrópu og fleiri ríki munu vilja eignast það frelsi sem heimurinn allur fær notið,“ segir Guðni.

Hann segir niðurstöðuna jafnframt geta haft áhrif á stjórnmálin hér heima, þar sem kosið verði bæði til forseta og þings á árinu. „Það er engin spurning að niðurstaðan mun vekja upp spurningar í höfði hvers einasta manns á hvaða leið vorum við.“ Hann bendir á að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi nema ríkisstjórnarflokkarnir hafi barist fyrir því að að klára Evrópusambandsviðræðurnar. „Núna hvílir mikil skylda á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum að stíga fram og marka sterka stefnu í þessum málum, og auðvitað skiptir miklu máli að hafa staðfastan forseta á Bessastöðum sem getur talað máli okkar í þessa veru.“

Evrópa hrynur ekki

Framtíðin sé því ekki eins dökk og sumir vildu láta vera. „Evrópa hrynur ekki, en hún hefði gert það ef þessi þróun hefði haldið áfram. Nú fær Evrópa ný tækifæri. Það tekur auðvitað einhvern tíma að endurskipuleggja málin, láta sambandið snúast um viðskipti en ekki yfirráð og völd í Brussel, það er auðvitað Brussel-valdið sem hefur farið með þessa þróun, því að þar var stefnan að búa til sambandsríki.“

„Ég álít að það séu tækifæri í þessari stöðu, allavega þurfum við Íslendingar ekki að stríða um það lengur, að við hljótum að geta eignast eina þjóðarsál um það að styrkja viðskiptasamband Íslands við ríki Evrópusambandsins og ekki síst Bretland og Noreg og fleiri ríki. Ég vona að við getum eignast eina þjóðarsál og svo sjáum við hvað strákarnir okkar í fótboltanum sjá og sigra, það er samstaðan sem gefur þeim styrkinn. Hér eigum við nýja möguleika á Íslandi, og nú verðum við að eiga stóra stjórnmálamenn sem að þora,“ segir Guðni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert