Skapar gríðarlegt óvissuástand

Katrín segir að niðurstaðan muni augljóslega hafa mikil áhrif á …
Katrín segir að niðurstaðan muni augljóslega hafa mikil áhrif á Bretland í heild. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru auðvitað stórtíðindi og ýmsar spurningar sem vakna,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. „Það þarf fyrst og fremst að skoða hvaða áhrif þetta hefur á Evrópusambandið og það samstarf og hvernig það mun þróast í framtíðinni.“

Katrín segist ekki hafa verið sammála mörgum þeim rökum sem stuðningsmenn Brexit höfðu frammi, sérstaklega þegar það kemur að innflytjendum og þjóðernishyggju. „En það hefur verið mikil gagnrýni á Evrópusambandið frá vinstri öflunum í Evrópu sem lúta að þessar niðurskurðarstefnu sem birtist best í samskiptum við Grikkland. Maður hefur fundið að þessi stemmning byggir á mörgum þáttum.“

Hún segir að niðurstaðan muni augljóslega hafa mikil áhrif á Bretland í heild. Bendir hún á að Skotar muni eðlilega krefjast nýrrar atkvæðagreiðslu um sjálfstæði. „Úrslitin þar eru alveg afgerandi að þeir vilji vera áfram í Evrópusambandi. Þá hafa Sinn Féin sem er okkar samstarfsflokkur í Írlandi krafist þess að Norður-Írland verði nú bara hluti af Írlandi.“

Mjög viðkvæmt andrúmsloft

Að mati Katrínar skapa þessar niðurstöður gríðarlega óvissu og er mikilvægt að fólk horfi til þess að leysa þau mál á friðsamlegan hátt fyrir Evrópu. „Maður finnur að það er mjög viðkvæmt andrúmsloft,“ segir Katrín.

Aðspurð um áhrif niðurstöðunnar á Ísland segir Katrín að nú þurfi að huga að EES-samningnum því það getur vel verið að þau samskipti breytist ef Bretland vill fara í einhvers konar tvíhliða samvinnu eða verða aðilar að EES. „Við þurfum að ræða þetta því það skiptir miklu máli fyrir okkur að huga að því að verja það góða samstarf sem við höfum átt innan þess ramma. Það þarf að gæta þess að þetta samstarf gangi. En auðvitað snýst þetta líka um það að Evrópusambandið og Bretlandi fari mjög vel yfir framtíðina og hvernig samstarfið á að þróast.“

Andrúmsloft tortryggni og haturs

Katrín segir jafnframt að ákvörðun David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, um að segja af sér í ljósi niðurstaðnanna, ekki koma sér á óvart. „Hann í raun og veru leggur af stað í þennan leiðangur og lofar þessari atkvæðagreiðslu og berst fyrir sinni lausn á málinu,“ segir Katrín og bætir við að þetta hafi verið mjög tæpt í kosningunum. „Skoðanakannanir í gær sýndu að þeir sem vildu vera inni væru í meirihluta. En það sem maður hefur áhyggjur af er þetta andrúmsloft í kringum þetta sem sést á morðinu á Jo Cox. Það er andrúmsloft tortryggni og haturs og sem skiptir okkur öllu máli að við leyfum því ekki að ná yfirhöndinni í þessum darraðardansi.“

Katrín er stödd í Frakklandi og segist hún sjá að fregnir morgunsins hafi vakið mikla athygli. „Ég finn fyrir því að hér eru menn að fylgjast vel með þróun mála og það sem stendur upp úr hjá öllum er að þetta sé algjört óvissuástand.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert