Áfram í farbanni vegna stórfellds smygls

Norræna kemur til hafnar á Seyðisfirði.
Norræna kemur til hafnar á Seyðisfirði. LjósmyndPétur Kristjánsson

Karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir stórfellt fíkniefnasmygl hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi farbann. Manninum hefur verið gefið að sök að hafa flutt inn til landsins 19,4 kg af amfetamíni og 2,6 kg af kókaíni frá Hollandi.

Sjá frétt mbl.is: Í farbanni eftir stórfellt fíkniefnasmygl

Fjórir karlmenn voru ákærðir fyrir aðild sína að málinu. Einn þeirra ók bíl frá Hollandi til Danmerkur þaðan sem hann tók Norrænu til Seyðisfjarðar í september 2015. Fíkniefni voru falin í sérútbúnum geymsluhólfum undir framsætum og í miðjustokk bifreiðarinnar, sem var af gerðinni Volkswagen Touran.

Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti í gær, segir að málið hafi dregist þar sem kalla hafi þurft til dómkvaddan matsmann til að meta sakhæfi eins hinna ákærðu og þá hafi komið fram kröfur verjanda um frekari gagnaöflun og afhendingu muna og gagna sem hafi gert það að verkum að málsmeðferð fyrir héraðsdómi hafi dregist.

Fyrirhugað sé að hefja aðalmeðferð málsins hinn 10. ágúst næstkomandi. Brotið sem sakborningnum er gefið að sök getur varðað allt að 12 ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert