Styttist í ákæru í stórfelldu fíkniefnamáli

Amfetamín.
Amfetamín. AFP

Hæstiréttur staðfesti farbannsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir þremur mönnum sem tengjast stórfelldu fíkniefnasmygli hingað til lands í gær. Einn Íslendingur og þrír útlendingar voru handteknir í tengslum við málið í september og hafa þrír sætt gæsluvarðhaldi og farbanni síðan þá. 

Þremenningarnir, tveir útlendingar og einn Íslendingur, eru í farbanni til 5. apríl. Í greinargerð héraðssaksóknara segir að 22. september hafi karl og kona komið með Norrænu hingað til lands. Lögreglan fylgdist með bifreiðinni þar sem henni var ekið til Reykjavíkur og þaðan til Keflavíkur á tímabilinu 22. – 25. september. Föstudaginn 25. september fór maðurinn, sem kom á bifreiðinni til Íslands, frá Íslandi en skildi bifreiðina eftir á bifreiðastæði við Keflavíkurflugvöll.

Kom aftur til landsins nokkrum dögum síðar

Hann kom síðan aftur til landsins 28. september og sótt bifreiðina. Einn þremenninganna sem nú eru í farbanni kom einnig til landsins með flugi þennan sama dag og óku þeir á sitt hvorri bifreiðinni á gistiheimili. Þar voru mennirnir báðir handteknir af lögreglu stuttu eftir komu þeirra í húsnæðið. Við leit í bifreiðinni sem kom með Norrænu fundist rúmlega 19,5 kg af amfetamíni og rúmlega 2,5 kg af kókaíni sem var búið að fela í henni. Eins og áður sagði voru fjórir handteknir vegna málsins og sættu þeir allir gæsluvarðhaldi um tíma.

Sá sem kom einnig til landsins með flugi 28. september neitaði sök við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu, en hefur nú játað það að hafa tekið þátt í því að flytja inn ofangreinda bifreið en hann hafi ekki vitað að í bifreiðinni væru falin fíkniefni. Hann hafi lýst fyrir lögreglu hvernig skipulagningu innflutningsins hafi verið háttað og að hann hafi áður tekið þátt í sambærilegum innflutningi.

Tveir Hollendingar skipulögðu smyglið með aðstoð héðan

Maðurinn greindi lögreglu frá því að tveir Hollendingar hafi átt þátt í skipulagningu innflutningsins. Hans  hlutverk var að koma til landsins, fjarlægja það sem var í bifreiðinni, og afhenda aðila við Bláa Lónið. Hann hafi síðan átt að fá skilaboð varðandi peningagreiðslu fyrir sinn þátt. Hann hefur upplýst lögreglu um að hann hafi nokkrum sinnum hitt samverkamenn sína á fundum í Hollandi, áður en haldið var til Íslands, þar sem ferðin var skipulögð. 

Þar sem maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi í tólf vikur án þess að mál hafi verið höfðað gegn honum er ekki unnt að úrskurða hann í lengra gæsluvarðhald og því var farið fram á farbann yfir honum. Rannsókn lögreglu sé nú lokið og hafi málið verið sent til héraðssaksóknara til ákærumeðferðar þann 7. mars sl. og bíði nú ákvörðunar um saksókn.

Með fullt af peningum í bifreiðinni

Íslenskur ríkisborgari, sem er búsettur erlendis, var einnig úrskurðaður í farbann í Hæstarétti í gær í tengslum við málið. Í  greinargerð frá héraðssaksóknara kemur fram að við eftirlit með bifreiðinni sem kom hingað til lands með Norrænu hafi lögreglan ítrekað orðið vör við aðra bifreið sem hafi virst fylgja hinni eftir. Við frekari skoðun lögreglu hafi komið í ljós að um var að ræða bílaleigubifreið sem Íslendingurinn leigði. Hann var handtekinn skammt frá gistiheimilinu á bifreiðinni fann lögregla sjónauka, lambhúshettu og rúmlega 15.600 evrur sem svari til rúmlega 2,2 milljóna íslenskra króna í bifreiðinni. 

Fram kemur maðurinn hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu en að mati lögreglu beri  framburði hans ekki saman við þau gögn sem lögregla hafi undir höndum, framburð meðkærða og vitna. Maðurinn hafi að öðru leyti lítið kosið að tjá sig hjá lögreglu eða kveðjist ekki muna eftir atvikum máls.

Í framburðum meðkærðu hjá lögreglu hafi komið fram að erlendir aðilar hafi tekið þátt í skipulagningu innflutningsins og hafi þeir verið í samskiptum eða í samstarfi við aðila hér á landi sem hafi fylgst með ferðum bifreiðarinnar. 

Miklir fjármunir skiptu um hendur

Í greinargerð segir að með heimild Héraðsdóms Reykjaness hafi lögreglan skoðað síma og fjármálagögn Íslendingsins. Við þá skoðun hafi margt komið fram sem styrki grun lögreglu. Ljóst sé að hann hafi nokkuð fjármagn í höndunum og svo virðist sem mikið fjármagn hafi farið á milli kærða og meðkærða hér á landi og erlendis. Í ljós kom að á tímabilinu frá 22. júlí til 10. september hafi verið lagðar rúmlega 9 milljónir inn á 30 Ikort, en 25 þeirra hafi fundist á heimili Íslendingsins. Þá megi sjá að rúmlega 8 milljónir hafi verið teknar út af þessum kortum í hraðbönkum í Evrópu á tímabilinu frá 22. júlí til 17. september. Lögreglan telji að þessir peningar hafi verið notaðir til að fjármagna fíkniefnainnflutninginn.

Kærði hafi neitað að tjá sig um það í hvaða tilgangi hann hafi lagt inn þessa peninga og hver eða hverjir hafi tekið út þessar fjárhæðir og í hvaða tilgangi. Þá hafi lögreglan undir höndum gögn sem sýni það að kærði hafi á þessu tímabili tekið nokkrar bifreiðar til leigu. Bifreiðunum hafi verið ekið yfir 2000 km á meðan kærði hafði umráð yfir þeim. Jafnframt hafi fundist síma sem talið er að hafi verið notaðir til að eiga dulkóðuð textasamskipti, líkt og fram kom í frétt mbl.is í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert