Með milljónir í bílnum og settur í farbann

Lögreglan fylgdist með ferðum bílsins eftir að hann kom með …
Lögreglan fylgdist með ferðum bílsins eftir að hann kom með Norrænu til landsins, hlaðinn fíkniefnum. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms Reykjaness um að íslenskur ríkisborgari, sem grunaður er um að tengjast stórfelldum innflutningi fíkniefna með Norrænu, sæti farbanni til 19. janúar. Hæstiréttur hefur einnig staðfest úrskurð um farbann yfir tveimur útlendingum sem komu bílinn til landsins. Þeir neituðu sök í fyrstu en hafa nú játað brot sín.

28. september lagði lögreglan lagt hald á rúmlega 19,5 kg af amfetamíni og rúmlega 2,5 kg af kókaíni sem fundust í bíl fyrir utan gistiheimili. Tveir erlendir ríkisborgarar, karl og kona, voru handteknir grunaðir um aðild að innflutningi fíkniefnanna hingað til lands. Annar þeirra kom með bílinn til landsins með ferjunni Norrænu 22. september.

Sjá einnig: Hollendingurinn áfram á Íslandi

Lögreglan hafði eftirlit með bifreiðinni í nokkra daga eftir komuna til landsins. Við það eftirlit hafi hún ítrekað orðið vör við aðra bifreið sem virtist fylgja hinni eftir. Við frekari skoðun lögreglu hafi komið í ljós að um var að ræða bílaleigubifreiðar sem maður, sem nú hefur verið úrskurðaður í farbann, var skráður leigutaki að. Hann var handtekinn skammt frá gistiheimilinu á bifreiðinni og í henni fann lögreglan sjónauka, lambhúshettu og rúmlega 15.600 evrur sem svarar til rúmlega 2,2 milljóna íslenskra króna. Við rannsókn málsins kom m.a. í ljós að maðurinn var á Seyðisfirði daginn sem bíllinn með fíkniefnunum kom til landsins.

Maðurinn neitaði sök en lögreglan segir framburð hans ekki bera saman við þau gögn sem hún hafi undir höndum, framburð meðkærða og vitna. Maðurinn hafi að öðru leyti lítið kosið að tjá sig hjá lögreglu eða kveðst ekki muna eftir atvikum máls.

Miklir fjármunir í spilinu

Í framburðum meðkærðu í fíkniefnamálinu hjá lögreglu hafi hins vegar komið fram að erlendir aðilar hafi tekið þátt í skipulagningu innflutningsins og hafi þeir verið í samskiptum eða í samstarfi við aðila hér á landi sem hafi fylgst með ferðum bílsins. Það sé ætlun lögreglu að maðurinn og meðkærði hafi verið samstarfsmenn þessara aðila hér á landi. 

Með heimild Héraðsdóms Reykjaness skoðaði lögreglan síma og fjármálagögn mannsins. Við þá skoðun hafi margt komið fram sem styrki grun lögreglu. Ljóst sé að maðurinn hafi nokkuð fjármagn í höndunum og virðist vera sem mikið fjármagn sé að fara á milli hans og meðkærða hér á landi og erlendis. Við skoðun á fjármálagögnum mannsins og meðkærða hafi komið í ljós að á tímabilinu frá 22. júlí til 10. september hafi verið lagðar rúmlega 9 milljónir inn á 30 Ikort, en 25 þeirra hafi fundist á heimili meðákærða. Þá megi sjá að rúmlega 8 milljónir hafi verið teknar út af þessum kortum í hraðbönkum í Evrópu á tímabilinu frá 22. júlí til 17. september. Lögreglan telji að þessir peningar hafi verið notaðir til að fjármagna fíkniefnainnflutninginn.

Dulkóðuð textasamskipti

Maðurinn hefur hins vegar neitað að tjá sig um það í hvaða tilgangi hann hafi lagt inn þessa peninga og hver eða hverjir hafi tekið út þessar fjárhæðir og í hvaða tilgangi. Við rannsókn málsins fann lögreglan m.a. kassa utan af Blackberry símum. Einn kassinn var utan af síma sem maðurinn var með við handtöku og telur lögreglan að sá sími hafi verið notaður í samskiptum við erlenda samverkamenn. Við rannsókn lögreglu á þessum síma hafi komið í ljós að símtækið var eingöngu hægt að nota í þeim tilgangi að eiga dulkóðuð textasamskipti.

Maðurinn, sem nú hefur verið úrskurðaður í farbann, þykir vera undir sterkum grun um aðild að broti sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Hann sætti gæsluvarðhaldi frá 29. september eða í 12 vikur. Á því tímabili var ekki höfðað mál gegn honum og því telur lögreglan að ekki sé heimilt að úrskurða hann áfram í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.  Því var farið fram farbann.

 Rannsókn lögreglu er vel á veg komin. Hún er að hluta til unnin í samstarfi við erlend yfirvöld og beinist meðal annars að því að hafa uppi á samverkamönnum fólksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert